Stjórnarfrumvarp um fiskeldi lagt fram á Alþingi

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem tengjast fiskeldi. Við undirbúning frumvarpsins var byggt að verulegu leyti á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skilaði tillögum sínum með skýrslu hinn 21. ágúst 2017.

Á síðu ráðuneytisins er efni frumvarpsins lýst á þennan hátt:

Áhættumat erfðablöndunar lögfest og ráðherra staðfesti tillögu að áhættumati

Stefna stjórnvalda er að ákvarðanir um uppbyggingu fiskeldis verði byggðar á ráðgjöf vísindamanna. Af þeim sökum er lagt til í frumvarpinu að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest og að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma. Hafrannsóknastofnun geri bindandi tillögur að áhættumati erfðablöndunar en tillögurnar verði áður bornar undir samráðsnefnd um fiskeldi til faglegrar og fræðilegrar umfjöllunar. Nefndin getur ekki gert neinar breytingar á áhættumatinu. Ráðherra staðfestir í kjölfarið áhættumat erfðablöndunar samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar og er sú tillaga bindandi fyrir ráðherra.

Áhættumat endurskoðað innan tveggja mánaða

Þá er í frumvarpinu kveðið á um að Hafrannsóknastofnun skuli leggja tillögu að endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar fyrir samráðsnefnd um fiskeldi innan tveggja mánaða eftir að lögin hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

Samráðsnefnd um fiskeldi sett á fót

Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra skipi samráðsnefnd sem er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Markmið þessa er að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumatsins og stuðla að nauðsynlegu samráði um uppbyggingu fiskeldis. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á en einnig að taka aðra þætti til skoðunar.

Í nefndinni eiga sæti fimm fulltrúar og eru þeir skipaðir til fjögurra ára í senn. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar formann nefndarinnar. Þá tilnefna Hafrannsóknastofnun, fiskeldisstöðvar, Landssamband veiðifélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga fulltrúa í nefndina.

Í greinargerð segir að meginefni frumvarpsins sé að:

heildarframleiðslumagn frjórra laxa verði byggt á áhættumati erfðablöndunar,
–      hafsvæðum verði skipt í eldissvæði og heimiluð verði úthlutun með auglýsingu,
–      stjórnsýsla verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi,
–      umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin falli niður,
–      mælt verði fyrir um vöktun og heimild til aðgerða vegna laxalúsar,
–      aukið gegnsæi verði um starfsemi fiskeldisfyrirtækja,
–      Umhverfissjóður sjókvíaeldis verði efldur,
–      rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax verði háð nýtingu þeirra,
–      tekin verði upp heimild til álagningar stjórnvaldssekta.