Skipulagsstefna um loftslag, landslag og lýðheilsu

Skipulagsstofnun hefur verið falið að vinna að gerð skipulagsstefnu um loftslag, landslag og lýðheilsu. Stefnan verður viðauki við gildandi Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem Alþingi samþykkti árið 2016.

Í fréttatilkynningu frá Skipuæagsstofnun segir: „Þótt skipulagsgerð sé fyrst og fremst á ábyrgð sveitarfélaga er einnig sett fram stefna í skipulagsmálum á landsvísu sem mótuð er af Skipulagsstofnun fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra. Rík áhersla er lögð á víðtækt samráð við sveitarfélög, opinberar stofnanir, félagasamtök og almenning og hefst því landsskipulagsferlið með kynningar- og samráðsfundum á sjö stöðum víðsvegar um landið.“

Skipulagsstofnun verður með fund á Ísafirði á morgun, þriðjudaginn 19. mars. Fundurinn verður á Hótel Ísafirði og hefst kl 14 og stendur til kl 16. Þar verður kynnt hvernig fyrirhugað er að standa að mótun stefnunnar og þátttakendum boðið að vera með í umræðuhópum um æskilegar áherslur og aðgerðir í skipulagsmálum.

Viðfangsefnin verður einkun áhrifin af loftslagsbreytingum, landslag og skipulag byggðar.