Algengar rangfærslur um endurheimt votlendis

Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins.

Enginn losunarflokkur í loftslagsbókhaldi Íslands er ábyrgur fyrir jafn mikilli losun af gróðurhúsalofttegundum og framræst votlendi, eins og kemur fram á meðfylgjandi mynd þar sem LULUCF er votlendi.

Eðlilega hafa ekki allir mikla þekkingu á umfangi og eðli losunar gróðurhúsalofttegunda úr framræstu votlendi og því er ekki laust við að all nokkurra rangfærslna gætir í umræðu um málefnið. Í þessari grein ætla ég að svara helstu rangfærslunum.

Rangfærsla 1     Votlendi skipta engu máli fyrir loftslagið

Votlendi/mýrar eru sérstakar því gróður sem vex í þeim rotnar ekki nema að mjög litlu leyti og  safnast því fyrir. Ástæðan fyrir því er að vegna vatnsins er ekkert súrefni til staðar og því ekki skilyrði fyrir örverur til að brjóta niður lífræna efnið og breyta því í CO2 (koltvísýring). Munurinn á gróðri í votlendi og t.d. graslendisgróðri er að graslendisgróður sölnar og rotnar að hausti og losar sama magn af CO2 og hann batt yfir sumarið. Í votlendi safnast saman órotnaðar jurtaleifar í oft mjög þykk mólög í hundruðir eða þúsundir ára. Þegar votlendi er framræst fer vatnið úr jarðveginum og skilyrði skapast fyrir örverur til að brjóta niður lífræna efnið. Rotnun hefst og þar með losun á CO2. Fyrir framræstar mýrar í okkar loftlagsbelti nemur losunin um 23 tonnum af CO2 á hektara á ári. Til samanburðar losar ný bifreið um 2 tonn af CO2 á ári. Einn fótboltavöllur er tæpur 1 hektari.

Rangfærsla 2     Við endurheimt votlendis losnar metangas sem er öflug gróðurhúsalofttegund og því borgar sig ekki að endurheimta votlendi

Metanið er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur (CO2) en magn þess á flatarmálseiningu er 200 falt minna. Ef magnið er fært yfir í CO2 ígildi jafngildir það 3 tonnum af CO2 á hektara á ári. Nettó ávinningurinn af endurheimt votlendis er því 20 tonn af CO2 á hektara á ári. Hægt er að hafa áhrif á magn losunar metansins með því að hafa vatnsyfirborðið rétt undir yfirborði jarðvegsins.

Rangfærsla 3     Íslenskar mýrar innihalda meira af steinefnum og því er losun frá þeim miklu minni en erlendis

Íslenskar mýrar, sérstaklega nálægt gosbeltinu, innihalda meira af steinefnum/gosefnum en mýrar á sambærilegum stöðum á hnettinum. Steinefnin hafa þau áhrif að losunin er umtalsvert meiri en frá mýrum sem innihalda minna af steinefnum. Rannsóknir Susanne Möckel við Háskóla Íslands sýna þetta ótvírætt. Viðtal við hana má finna á www.votlendi.is eða á https://vimeo.com/311181214

Rangfærsla 4     Ekki eru til neinar rannsóknir til að geta fullyrt um losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum mýrum

Niðurstöður rannsókna sem hafa verið gerðar og eru í gangi gefa ekki tilefni til að ætla að losun frá íslenskum mýrum sé almennt frábrugðin losun frá mýrum á sambærilegum stöðum á hnettinum. Sjá einnig umræðu um steinefnin í rangfærslu 3.  Rannsóknir Gunnhildar Evu Gunnarsdóttir á sextán framræstum og óframræstum mýrum á Suðurlandi og rannsóknir Hlyns Óskarssonar og Jóns Guðmundssonar frá Landbúnaðarháskólanum og Rannveigar Ólafsdóttur á svæðum á Vesturlandi sýna þetta glöggt.

Rangfærsla 5     Betra er að rækta tré á framræstu landi en að endurheimta það

Öflugustu leiðirnar til að takast á við loftslagsvandann hérlendis eru að endurheimta votlendi, græða upp illa farið land og rækta tré. Jarðvegur framræsta landsins heldur áfram að losa gróðurhúsalofttegundir þó að tré séu gróðursett í hann. Besta niðurstaðan fyrir loftslagið er að endurheimta votlendi, rækta upp tré þar sem gott er að rækta tré (ekki í votlendi) og ná gróðurþekju á illa farið land.

Rangfærsla 6     Litlir, gamlir eða grónir skurðir losa ekkert lengur

Skurðir grafnir í votlendi losa gróðurhúsalofttegundir, en það sem mestu máli skiptir er allt svæðið sem skurðurinn framræsir, sem getur verið mjög stórt og allt upp í nokkur hundruð metra í hvora átt frá skurðinum. Um leið og vatn fer úr jarðveginum kemst súrefni ofan í hann og skilyrði skapast fyrir örverur til að hefja niðurbrot á lífrænu efni. Kolefni tapast og hraðinn á  tapinu jafngildir því að  jarðvegurinn þynnist um hálfan sentimetra á ári. Það tekur metersþykkt mólag því 200 ár að rotna og verða að lofttegund. Það er ekki langt síðan framræsla hófst á Íslandi svo ástæða er til að ætla að flest framræst svæði á Íslandi séu enn að losa gróðurhúsalofttegundir af fullum krafti. Það skiptir litlu hvort skurður er gróinn eða ekki. Lífræna framræsta efnið heldur áfram að rotna á meðan eitthvað er til að rotna.

Rangfærsla 7     Losun frá framræstu landi er stórlega ofmetin

Tölurnar um losun gróðurhúsalofttegunda á hverja flatarmálseiningu eru orðnar nokkuð góðar en flókið mál er að meta stærð alls framræsts lands á Íslandi. Með betri loftmyndum og nákvæmari skurðakortum og gróðurkortum er hægt að álykta betur um heildarflatarmálið. En ef við gefum okkur að losunin frá votlendinu sé helmingi minni en talið er þá er hún samt sem áður svipuð eða meiri en allir hinir losunarflokkar Íslands til samans.

Eyþór Eðvarðsson, stjórnarformaður Votlendissjóðsins

 

DEILA