Vesturbyggð setur 38 milljónir kr í ný ljósleiðaraverkefni

Arnarfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti í gær að setja 38 milljónir króna í þrjú ljósleiðaraverkefni á næstu árum. Fjárframlagið á þessi ári verður 12 milljónir króna og 13 milljónir króna á næsta ári og 2021.

Verkefnin þrjú eru Bíldudalur – Foss, Bíldudalur – Grænuhlíð og Látrabjarg. Vesturbyggð er boðin sérstakur byggðastyrkur samtals að upphæð fimm miljónir inn í verkefnin frá ríkinu  og að auki 80 % af þeirri upphæð sem er ófjármögnuð í hverju verkefni fyrir sig.

Bókað er eftirfarandi í fundargerð bæjarráðs:

„Ljóst er að hér er um stórt og metnaðarfullt verkefni að ræða. Vegalendir eru miklar og tengingar fáar. Til þess að verkefnið sé gerlegt verða aðrir aðilar að koma að verkinu sem eiga hagsmuna að gæta.

Bæjarráð telur þetta mikilvægt verkefni fyrir dreifbýli og samþykkir að taka tilboði Fjarskiptasjóðs og leggja til allt að 12 miljónir í verkefnin fyrir árið 2019, 13 miljónir 2020 og 13 miljónir 2021.

Framlagi Vesturbyggðar til verkefnisins fyrir árið 2019, vísað til gerðar viðauka við fjárhagsáætlun.“

DEILA