Vesturbyggð: Karlar í skúrnum

Séð yfir Patreksfjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar  ræddi í gær um karla í skúrnum.

Verkefnið Karlar í skúrnum er alþjóðlegt verkefni á vegum Rauða krossins. Verkefnið snýr að því að karlar, 18 ára og eldri, sem einhverra hluta vegna hafa dottið út af vinnumarkaði vegna aldurs eða veikinda geta hist og haft eitthvað fyrir stafni. Sambærilegt verkefni er rekið í Hafnarfirði.

Einar Skarphéðinsson, Patreksfirði f.h. Rauða krossins sneri sér til bæjarins með þessa hugmynd.  Hún hefur verið rædd meðal nokkurra íbúa og hafa þeir sýnt verkefninu mikinn áhuga en það er allt unnið í sjálfboðastarfi, að því er fram kemur í erindinu. Svo hrinda megi verkefninu af stað þarf að finna því hentugt húsnæði.

Óskað var eftir að Vesturbyggð leggi verkefninu til húsnæði þar sem er gott aðgengi en fyrsta verkefni hópsins yrði að koma húsnæðinu í stand.

Tekið var vel í erindið og var bæjarstjóra falið að vinna að framgangi málsins í samráði við bréfritara.

 

DEILA