Útflutningsverðmæti sjávarafurða aldrei meira í erlendri mynt

Hagfræðideild Landsbankans segir í nýrri Hagsjá bankans að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári hafi aldrei verið meira í erlendri mynt.

Á föstu meðalgengi ársins nam útflutningsverðmæti sjávarafurða 239,6 ma.kr. á síðasta ári og jókst það um 34,5 ma.kr. milli ára eða 16,8%. Útflutningsverðmæti sjávarafurða á föstu nafngengi hefur ekki áður mælst jafn mikið ef horft er allt aftur til ársins 1961. Til eru gögn yfir verð helstu viðskiptamynta gagnvart íslensku krónunni allt aftur til þess árs. Næstmesta útflutningsverðmætið var árið 2015 en uppfrá því ári tók krónan að styrkjast verulega og lækkaði útflutningsverðmætið mælt í krónum töluvert.

Útflutningsverðmætið jókst um 21,7% á gengi hvers tíma

Á verðlagi hvers tíma nam útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða 239,7 ma.kr. á síðasta ári borið saman við 197 ma.kr. árið áður og jókst útflutningurinn því um 42,7 ma.kr. eða 21,7%.

Aukið útflutningsverðmæti þorsks hafði mestu áhrifin

Sú tegund sem hafði mestu áhrifin á aukið aflaverðmæti milli ára var þorskur en aflaverðmæti hans jókst um 16,7 ma.kr. milli ára og stóð hann því á bak við um 39% af aukningu aflaverðmætis sjávarafurða milli ára. Þessa miklu breytingu má
skýra fyrst og fremst með auknum veiðum en þær  jukust um 8,8% milli ára.

Sjómannaverkfallið í janúar og febrúar 2017 skýrist þessa aukningu milli ára.  Alls námu veiðar á þorski um 275 þúsund tonnum á síðasta ári sem var 22 þúsund tonnum meiri veiði en á árinu 2017.

4,6% verðhækkun í erlendri mynt

En auk þess að veiða meira magn á árinu 2018 þá hækkaði verð á þorskafurðum í erlendri mynt. Verðvísitala sjávarafurða liggur ekki fyrir vegna alls ársins í fyrra en á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins var verð sjávarafurða að meðaltali 4,6% hærra en á sama tímabili árið áður mælt í erlendri mynt.

DEILA