Stórfelldar seiðasleppninga í laxveiðár

Engin fiskræktaráætlun er til fyrir Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi.

Alls var um 6,3 milljónum seiða sleppt í íslenskar laxveiðiár á árunum 2013 – 2017. Sleppt var 838.121 smáseiðum og 5.475.898 gönguseiðum í a.m.k. 21 ár á þessum fimm árum. Nöfn ánna hafa ekki verið upplýst og því er heildarfjöldi þeirra þar sem seiðum hefur verið sleppt, ekki þekktur. Fiskistofa neitar að gefa nöfnin upp og ber við ákvæði upplýsingalaga.

Sleppingar
Ár smáseiði gönguseiði fj. Vatnsfalla
2013 88.296 1.031.700 12
2014 178.566 1.140.700 21
2015 251.728 1.254.700 20
2016 172.120 1.181.098 19
2017 147.411 867.700 10
Samtals 838.121 5.475.898 6.314.019

 

Árleg veiði á landinu er um 40 þúsund laxar. Á síðasta sumri var veiðin um 38.000 laxar samkvæmt bráðabirgðatölum.

Samkvæmt lögum um fiskrækt eru sleppingar skilgreindar sem fiskirækt. Hverju veiðifélagi eða veiðiréttarhafa, sem hyggst stunda fiskrækt er skylt að gera fimm ára fiskræktaráætlun. Í lögunum segir:

„Hlutverk fiskræktaráætlunar er að gera fyrirhugaða fiskrækt markvissa og árangursríka og tryggja eftir föngum að þannig sé að fiskrækt staðið í hvívetna að vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna stafi ekki hætta af slíkum framkvæmdum.“

Fiskræktaráætlunin skal leggja fyrir Fiskistofu og fá samþykki hennar að fenginni umsögn Hafrannsóknarstofnunar. Í samþykki Fiskistofu „skulu koma fram þeir skilmálar sem Fiskistofa telur nauðsynlega, m.a. til verndar viðkomandi fiskstofni gegn sjúkdómum og erfðablöndun.“

Ekki miklar áhyggjur af sjúkdómum og erfðablöndun

Í skriflegu svari Fiskistofu við fyrirspurn Bæjarins besta er upplýst að aðeins 9 veiðifélög hafi gert fiskræktaráætlun og þrjár áætlanir til viðbótar eru til umfjöllunar en hafa ekki verið samþykktar. Það er því ljóst að a.m.k. í 12 ám eru stundaðar sleppingar á síðustu 5 árum án lögbundinnar samþykktrar fiskræktunaráætlunar, sem meðal annars á að vernda stofn árinnar fyrir sjúkdómum og erfðablöndun. Fjöldi seiðanna pr. ár sem sleppt hefur verið á árunum 2013 – 2017 er um 30 sinnum meiri en árlegur fjöldi veiddra laxa.

Samþykktar fiskræktaráætlanir:

Veiðifélag Vatnsfall Lögð fram Lýkur
Veiðifélag Gríshólsár og Bakkaár Bakkaá og Gríshólsá í Helgafellsveit 2017 2022
Veiðifélag Laxár í Aðaldal Laxá í Aðaldal 2016 2021
Veiðifélagsdeild Stóru-Laxár (VÁ) Stóra-Laxá 2017 2021
Veiðifélag Eldvatns Eldvatn 2016 2021
Veiðifélag Sæmundarár Sæmundará 2016 2020
Veiðifélagið Flóka Flókadalsá 2016 2020
Veiðifélag Dunkár Dunká 2014 2019
Veiðifélag Þverár í Borgarfirði Þverá 2014 2019
Eigandi Mjóavatns Mjóavatn 2014 2019

 

Fiskistofa hefur nú til meðferðar fiskræktaráætlanir fyrir Veiðifélag Breiðdæla (dags. 7. desember, 2018: 2019-2024), Veiðifélags Víðidalsár (11. september 2018: 2018-2023) og Veiðifélags Jöklu (dags. 15. desember 2017: 2018-2022).

DEILA