ALDREI FÓR ÉG SUÐUR FIMMTÁN ÁRA Á FÖSTUDEGINUM LANGA

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður á Ísafirði fer fram í sextánda sinn (samt fimmtán ára, reiknið nú) á páskum, nánar til tekið 19.- 20. apríl næstkomandi.
Í fréttatilkynningu frá hátíðinni segir:
Dagskrá hátíðarinnar er sprúðlandi glæsileg í ár og má með sanni segja að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á fjölbreyttu hlaðborði hátíðarinnar. Eins og áður fer dagskráin um víðan völl í straumum og stefnum tónlistar þar sem bæði landsþekktar hljómsveitir og listamenn koma fram í bland við ungt, upprennandi og spennandi tónlistarfólk. Segja mætti að breiddin í dagskránni, þessi vel blandaði grautur sé aðalsmerki hátíðarinnar og í ár mætti líkja dagskránni við góðan „bland í poka” fyrir tvöþúsundkall eða sextántommu pizzu hlaðinni öllum bestu áleggstegundunum. 
 
Fram koma; MAMMÚT, TODMOBILE, JÓIPÉ X KRÓLI, JÓNAS SIG, SALÓME KATRÍN, AUÐN, BERNDSEN, ÞORMÓÐUR EIRÍKSSON,  SVALA, SIGURVEGARAR MÚSIKTILRAUNA 2019, HERRA HNETUSMJÖR, HÓRMÓNAR, AYIA, BAGDAD BROTHERS, GOSI og TEITUR MAGNÚSSON & ÆÐISGENGIÐ

 

Hátíðin fer fram í húsnæði Kampa á Ísafirði eins og síðustu þrjú ár, að kvöldi föstudagsins langa og laugardags fyrir páska. Þar koma fram: Stórhljómsveitin TODMOBILE. Hana þekkja allir en hljómsveitin hefur ekki spilað á Ísafirði síðan um miðbik tíunda áratugarins. Samstarf Músiktilrauna og Aldrei fór ég suður tryggir að meðal fyrstu formlegra tónleikanýbakaðra SIGURVEGARA MÚSIKTILRAUNA 2019 verða á hátíðinni en þar að auki  munu heiðra okkur með sinni nærveru, fyrrum sigursveitirnar MAMMÚT og HÓRMÓNAR. Tónlistarmaðurinn JÓNAS SIG átti eina af bestu plötum síðasta árs og mun hann trylla lýðinn með sinni hljómsveit og hvetja fólk til þess að dansa. SVALA BJÖRGVINSDÓTTIR kann líka að dansa en loksins er tryggt að hún verði á svæðinu. Svala vakti mikla athygli á síðustu Iceland Airwaves hátíð með framkomu sinni og sinnar frábæru hljómsveitar. BERNDSEN spilar einnig í fyrsta sinn á AFÉS-sviðinu og sama gildir um TEIT MAGNÚSSON og ÆÐISGENGIРhans. Svartmálmssveitin AUÐN hefur vakið mikla athygli um allan heim fyrir tónlist sína og þykir með þeim allra fremstu úr röðum íslenskra black metal hljómsveita. Tvær nýjar og býsna spennandi hljómsveitir munu stíga á stokk í ár og eru aðstandendur hátíðarinnar sérlega spenntir að kynna þær fyrir gestum, það eru AYIA sem hlaut verðlaun Reykjavík Grapevine fyrir tónlistarmyndband ársins á dögunum og svo BAGDAD BROTHERS sem fæstir íslenskir tónlistarunnendur halda vatni yfir.

 

Aldrei fór ég suður kynnir loks með miklu stolti ungt og upprennandi tónlistarfólk úr heimabyggð. Söngkonan SALÓME KATRÍN tók þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2015 og hefur eftir það notað tímann ansi vel í að læra söng og hljóðfæraleik. Hún hefur aukinheldur verið iðin við að semja sína eigin tónlist og fá gestir Aldrei fór ég suður þann heiður að verða vitni að frumflutningi á sviði. Fylgist vel með Salóme á næstu misserum. Tvíeykið GOSI varð til í Hollandi árið 2012 og er verkefni hins listríka pars Andra Péturs Þrastarsonar og Mörtu Sifjar Ólafsdóttur. Marta kom áður fram undir nafninu Mysterious Marta og hefur Andri spilað með fáeinum hljómsveitum frá Ísafirði. Loks er það hinn ísfirski lagahöfundur og pródúsent ÞORMÓÐUR EIRÍKSSON sem íslenskt tónlistarfólk keppist við að lofa í hásterrt um þessar mundir. Þormóður hefur unnið hvern smellinn á fætur öðrum upp á síðkastið og hefur verið vikulegur gestur á vinsældarlistum útvarpsstöðvanna og Spotify veitunnar. Meðal helsta samstarfsfólks Þormóðs eru JóiPé og Króli, Herra Hnetusmjör, Ingileif, Huginn, Emmsjé Gauti og DAVID44. Með Þormóði í för um páskana verða þeir JÓIPÉ OG KRÓLI og HERRA HNETUSMJÖR.
Hér er kynningarmyndband hátíðarinnar í ár en þar fer Pétur Magnússon, fallegi smiðurinn hrjúfri röddu um allt það listafólk sem kemur fram á hátíðinni. Pétur er og hefur verið kynnir hátíðarinnar í gegnum tíðina og eru allir kynntir á svið eins og sjálfur Bruce Springsteen væri þar væntanlegur: https://www.youtube.com/watch?v=gbaqL1z8ioA

 

 

DEILA