Hafró upprunagreinir strokulaxa

Hafrannsóknarstofnun telur sig hafa rakið með vissu 9 strokulaxa, sem veiddust á þessu ári, til kvíastæða í Hringsdal í Arnarfirði og í Laugardal í Tálknafirði. Alls voru 12 fiskar veiddir sem taldir eru eldisfiskar, 11 þeirra hafa verið greindir en einn er enn í mælingu. Eitt sýni þarf að endurkeyra og einn fisk þarf að skoða frekar og hugsanlegt er að hann hafi komið annars staðar frá. Sá veiddist í Breiðdalsá á Austurlandi.

Hafrannsóknarstofnun í samvinnu við MAST og Matvís hafa unnið að upprunagreiningu eldislaxa sem veiðast hafa í íslenskum ám.

Notuð er svokölluð arfgerðagreining og eru 14 erfðamörk greind og borin sama við erfðamörk þeirra hænga sem notaðir voru við framleiðslu seiða 2015.

Þá segir í frétt Hafrannsóknarstofnunar:

„Tilkynnt hafa verið þrjú atvik sem stemma við þessar staðsetningar. Arnarlax tilkynnti atvik/strok í Hringsdal í Arnarfirði þann 21. febrúar sl. og tvö atvik í Laugardal í Tálknafirði, annað í febrúar og hitt í júlí á þessu ári.

Svo virðist sem allir fiskarnir hafa komið úr tilkynntum strokum.“

 

DEILA