ASÍ fellur frá stuðningi við starfsgetumat

Þuríður Harpa Sigurðardóttir heilsar Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis. Mynd: Öryrkjabandalag Íslands.

Alþýðusamband Íslands hefur fallið frá hugmyndum um starfsgetumat. Þetta var samþykkt á nýafstöðnu þingi ASÍ.  Lögð er áhersla á að auka samstarf við Öryrkjabandalag Íslands um málefni sem varða almannatryggingakerfið og að krónu-á-móti-krónu skerðing verði afnumin strax.

ASÍ hefur haft starfsgetumatið á stefnuskrá undanfarin ár og hefur það haft áhrif á stefnu stjórnvalda. Nú segir með skýrum hætti í stefnu ASÍ um heilbrigðisþjónustu og velferðarmál: „ASÍ hafnar núverandi hugmyndum að starfsgetumati og vinni með ÖBÍ að þeirra málum.“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands  fagnaði stefnubreytingu ASÍ í viðtali við bb.is. „Það er mikil breyting að fá núna stuðing ASÍ við afstöðu ÖBÍ“ segir Þuríður Harpa. Þuríður segir af örorkulífeyrir sé of lágur og það sé mikil nauðsyn að auka ráðstöfunartekjur öryrkja fremur en hitt sem er fylgifiskur starfsgetumats, að það leiði til skerðingar á lífeyrinum og jafnvel til þess að það dragist að fá örorkulífeyri. Erlendis þar sem starfsgetumat hafi verið tekið upp eins og í Danmörku hafi það stundum leitt til þess að öryrkjar hafi ekki fengið sinn lífeyri fyrr en mörgum árum síðar en ella hefði verið.

Í tilkynningu frá ÖBÍ segir:

„Með sama hætti leggst Alþýðusambandið alfarið gegn krónu-á-móti-krónu skerðingunni. Sambandið vill að hún verði afnumin strax og að skerðingarhlutfall í almannatryggingum verði lækkað í 30%.

Ljóst er að þessi stefnubreyting ASÍ getur haft víðtæk áhrif. Þannig hefur sambandið hingað til sett upptöku starfsgetumats og breytingar á almannatryggingakerfinu í samhengi við afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar. Ljóst er að nú er sú tenging úr sögunni hjá Alþýðusambandi Íslands. Það hlýtur að hafa áhrif á það hvert stjórnvöld hyggjast stefna í þessum efnum. Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar er augljóst réttlætismál eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á árum saman.“

DEILA