Strandveiðar: Þarf að tryggja ásættanlega afkomu

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra og Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands Smábátaeigenda fjallaði um starndveiðarnar í yfirlitsræðu sinni við setningu aðalfundar Landssambandsins. Sagði hann m.a. að strandveiðarnar væru orðnar að alvöru atvinnugrein sem stjórnvöld yrðu að taka tillit til.

„Á aðalfundum svæðisfélaganna komu fram margar ástæður fyrir því að færri stunduðu veiðarnar en í fyrra. Fiskverð, hagstætt leiguverð, grásleppa á sama tíma og undirliggjandi ótti við að veiðar yrðu stöðvaðar áður en tímabilið væri á enda.
Að loknu tímabilinu ríkti jákvæðni með þær breytingar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu.
Nú eru strandveiðar orðnar alvöru atvinnugrein og ber stjórnvöldum því að umgangast þær sem slíkar.
Hinar dreifðu byggðir reiða sig á þær, fiskmarkaðir og vinnslu- og söluaðilar. Svo ekki sé talað um alla þá þjónustuaðila sem byggja á veiðunum.
Þannig að strandveiðar komist yfir haftaþröskuldinn verður að tryggja að afkoma af veiðunum geti skilað ásættanlegum launum og staðið undir kostnaði sem til fellur við þær ásamt viðhaldi báts.
Þegar skoðanir strandveiðimanna eru teknar saman er megin krafan sú að tryggt verði að veiðidagar í hverjum mánuði verði aldrei færri en 12.
Heimilt verði að nýta þá á tímabilinu 1. apríl – 30. september, jafnskipt á 4 samfellda mánuði. Væntanlega mun þetta þýða meiri afla, en það verður að gera tilraunina þannig að menn fái vitneskju um hvort beina brautin sé þessi.

Línuívilnun:

Um línuívilnun sagði Örn Pálsson í ræðu sinni:

Staðan gjörbreytt. Á fyrsta heila ári línuívilnunar 2004 2005 voru 300 bátar sem fengu ívilnun og gerðir út frá 50 útgerðarstöðum. Á síðasta fiskveiðiári voru bátarnir aðeins 112 og útgerðarstaðirnir sem beitt var á 38 talsins.
Nauðsynlegt að tryggja áfram umhverfisvænar veiðar með því að hrinda tillögu LS í framkvæmd um að allir dagróðrabátar fái línuívilnun upp að vissu magni í hverjum róðri.

DEILA