Laugardalsá: 10,5 mkr. tekjur

Hlutafélagið Laugardalsá ehf í Hafnarfirði greiddi veiðiréttareigendum í Laugardal í Ísafjarðardjúpi 10,5 milljónir króna í leigu fyrir ána árið 2016 samkvæmt ársreikningum fyrir félagið.  Helstu tekjur félagsins voru sala veiðileyfa og námu þær tekjur 14,5 milljónir króna. Stærsti útgjaldaliðurinn var sem fyrr segir greiðsla fyrir veiðiréttinn 10,5 milljæinir króna. Árinu áður voru þessar greiðslur 10,2 milljónir króna.

Hagnaður ársins varð óverulegur bæði árin. Eigendur Laugardalsár ehf eru að jöfnu Jóhann  K. Birgisson og Guðmundur Atli Ásgeirsson.

Eins og kunnugt er, er laxveiði í Laugardalsá og tveimur öðrum ám í Ísafjarðardjúpi ástæða þess að Hafrannsóknarstofnun leggst gegn laxeldi í sjókvíum í Djúpinu. Burðarþolsmat svæðisins er 30 þúsund tonn,  sem myndi gefa 30 milljarða króna í útflutningstekjur á ári.