Hafró fjölgar um tvo starfsmenn á Ísafirði

Hafrannsóknarstofnun hefur fjölgað starfsmönnum sínum á Ísafirði úr 5 í 7. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi á mánudaginn. Sjávarútvegsráðherra Kristján Þór Júlíusson var að svara fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni  um starfsemi Hafrannsóknarstofnunar á Ísafirði. Gunnar Bragi spurðist fyrir um áform um að yfirmaður fiskeldissviðs Hafrannsóknarstofnunar yrði á Ísafirði. Fram kom í svörum ráðherra að Hafrannsóknarstofnun teldi óheppilegt að forstöðumaður fiskeldissviðsins yrði á Ísafirði. Mikilvægt væri að yfirmaðurinn yrði nálægt sínum yfirstjórn stofnunarinnar. Ráðherra sagði að stofnunin hefði fullt sjálfstæði og að hann myndi ekki hlutast til um starfsmannamál.

Hins vegar sagði ráðherrann: „Ég hef rætt við forstjóra Hafrannsóknastofnunar um að ég telji mjög mikilvægt að fiskeldishluti stofnunarinnar verið treystur á Ísafirði“ og benti svo á að starfsmönnum á ísafirði hefði fjölgað úr 5 í 7.

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir blandaði sér í umræðurnar um fyrirspurnina og kvað mikilvægt að styrkja stöðu fiskeldismála. Ræðu sinni lauk hún með þessum orðum: „Eins ber að efla fiskeldið á Vestfjörðum, ekki síst á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem það er mest.“