Trúnaðarmannaráð Sjómannafélags Íslands hefur vikið Heiðveigu Maríu Einarsdóttur úr félaginu og er vísað til 10. greinar laga félagsins því til stuðnings. Átján af 23 sem voru á fundinum studdu ákvörðunina. Var það að því er fram kemur í bréfi formanns Sjómannafélagsins til Heiðveigar gert að kröfu fjögurra félagsmanna til stjórnar eða trúnaðarmannaráðs. Umrædd grein veitir heimild til brottreksturs þegar talið er að viðkomandi félagsmaður hafi skaðað hagsmuni félagsins. Um er að ræða algerlega einstæðan atburð og verður líklega að fara marga áratugi aftur í tímann til þess að finna hliðstæðu.
Heiðveig María Einarsdóttir hefur tilkynnt að hún hyggðist bjóða sig fram til formennsku í félaginu. Eftir það var upplýst um að á síðasta aðalfundi hefði lögum félagsins verið breytt á þann hátt að aðeins þeir sem hefðu verið í félaginu í þrjú ár gætu boðið sig fram.
Nú hefur verið gengið lengra og Heiðveigu hefur verið vikið úr félaginu.
Heiðveig María Einarsdóttir sagðist vera orðlaus þegar bb.is náði í hana í kvöld. Hún sagðist vera að meta stöðuna og þá kosti sem fyrir hendi eru, en sagði að málinu væri ekki lokið.
Sameiningaviðræður Sjómannafélagsins við fjögur önnur félög runnu út um þúfur þegar félögin í Eyjafirði og Vestmannaeyjum slitu viðræðunum í kjölfar ásakana í garð núverandi forystu félagsins. Það vekur athygli í þessu einstæðu máli að sá sem vikið er úr félaginu fær ekki að vita af kröfunni né verjast ásökunum áður en ákvörðun er tekin. Með brottrekstrinum er viðkomandi sviptur félagsbundnum réttindum.