Ísafjarðarbær lagar skólalóðina á Ísafirði

Fyrir stuttu var sagt frá því á síðum bb.is að Ísafjarðarbær hygðist ekki laga skólalóðina við Grunnskóla Öndunarfjarðar þetta árið, vegna þess að eina útboðið sem barst var yfir kostnaðaráætlun. Í fundagerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 2. júlí síðastliðnum kemur fram að bærinn ætli að koma fyrir og kaupa fleiri leiktæki á skólalóðina við Grunnskólann á Ísafirði. Á fundinum er lagt fram bréf Brynjars Þórs Jónassonar, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs þar sem lagt er til að samið verði við Kubb ehf. um framkvæmdir á skólalóðinni. Í bréfinu kemur fram að engin tilboð hafi borist og í þeim tilfellum sé heimilt að leita tilboða hjá verktökum á svæðinu. Það hafi verið gert og leitað til Kubba ehf. en tilboð frá þeim hafi verið 11,656,850 milljónir. Heildarkostnaður við verkið með kaupum á leiktækjum, öryggishellum, hönnun og eftirliti sé þá áætlaður 28,905,920 milljónir en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 var gert ráð fyrir 30 milljónum króna í verkið, alveg eins og í viðgerðir á lóðinni á Flateyri.

Sæbjörg
bb@bb.is