Skráningar hafnar á Tungumálatöfra 2018

Opnað hefur verið fyrir skráningu á Tungumálatöfra, sem fer fram á Ísafirði 6.-11. ágúst 2018. Um er að ræða sumarnámskeið fyrir tví- og fjöltyngd börn og er markmið þess að búa til málörvandi námskeið í gegnum listkennslu, þar sem íslenska er annað eða eitt af mörgum tungumálum barnanna. Námskeiðið er hugsað fyrir íslensk börn sem hafa fæðst eða flutt erlendis og börn af erlendum uppruna, sem hafa sest að hér á landi, en er um leið opið öllum börnum.

Leiðbeinendurnir að þessu sinni eru Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, myndlistarkona og kennari við Grunnskólann á Ísafirði, Nína Ivanova, myndlistarkona, Jón Gunnar Biering Margeirsson, tónlistarkennari, Dagný Arnaldsdóttir, tónlistarkennari, og Isabel Alejandra Díaz, háskólanemi. Í verkefnastjórn eru Herdís Magnea Hübner, Svava Rán Valgeirsdóttir, Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Anna Hildur Hildibrandsdóttir og verkefnisstjórarnir Isabel Alejandra og Ólöf Dómhildur.

Kennt verður í eina viku frá kl. 13 – 17 og unnið með þema sem tengist sjónum, bátunum, sjóferðum og fólkinu á Ísafirði. Börnin nota hugmyndaflug sitt við úrvinnslu verkefna og leitað verður eftir viðbrögðum hjá þeim til að hvetja þau til að tjá sig. Verkefnin gefa hverju barni tækifæri til að nota fleiri en eitt tungumál og kenna hinum börnunum á námskeiðinu sitt tungumál en á sama tíma er lögð áhersla á að styrkja íslenskukunnáttu þeirra allra. Námskeiðinu lýkur á tungumálaskrúðgöngu þar sem börn og bæjarbúar ganga frá Menningarmiðstöðinni Edinborg niður í Neðstakaupstað til þess að fleyta bátum og fagna fjölbreytileikanum.

Námskeiðið fer fram í Menningarmiðstöðinni Edinborg á Ísafirði en hún rekur verkefnið í samstarfi við áhugamannahóp um fjöltyngi. Verkefnið hefur nú þegar hlotið styrki frá Ísafjarðarbæ, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Pennanum Eymundsson og Landsbankanum. Stjórnin hvetur fyrirtæki á svæðinu til að styðja við starfsmenn af erlendum uppruna, styrkja þá og hvetja til að senda börn sín á námskeiðið og ýta þannig undir aðlögun að tungumálinu og þátttöku í samfélaginu.

Það er pláss fyrir 30 börn á aldrinum 5-10 ára og er námskeiðsgjaldið 15.000 kr. Skráning fer fram á eftirfarandi síðu:
https://docs.google.com/forms/d/1EGC2eSxSpi7BsJrhi9X_Xhb78jPr99UVvrlfHPednrs/edit

Stjórn Tungumálatöfra heldur úti facebook síðu fyrir námskeiðið:
https://www.facebook.com/tungumalatofrar/

Frekari upplýsingar veitir Isabel Alejandra Diaz í tungumalatofrar@gmail.com og í síma 779-2644 eða Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir í o.domhildur@gmail.com og í síma 694-5990.

Sæbjörg

sabjorg@bb.is

DEILA