Heiðursmaður fallinn frá

Arnór Stígsson.

Fallinn er frá hér á Ísafirði mikill heiðursmaður, Arnór Stígsson. Arnór fæddist 1922 að Horni í Hornvík og bjó þar til ársins 1946. Eins og margir af þessari kynslóð ólst Arnór upp í torfbæ og hefur sennilega lifað mestu samfélagsbreytingar sem um getur fyrr og síðar til allsnægta nútímans. Arnór minnist þess í Morgunblaðsviðtali að þeim krökkunum hafi aldrei verið kalt í torfbænum, en voru að drepast í timburskálanum sem við tók. Arnór var giftur Málfríði Halldórsdóttur og saman áttu þau þrjú börn, Stíg, Svanfríði og Elfu Dís.

Arnór var frækinn fyglingur og sótti björg í bú í Hornbjargi. Hann var nokkru sinnum hætt komin við bjargsig „Einu sinni vorum við að síga til að snara fugl. Ég hallaði mér fram á bandið með fuglastöngina til að snara til hliðar við mig, þá missir maðurinn bandið sem hélt í það. Um leið og ég áttaði mig á því að bandið gaf eftir stökk ég fram af, náði fram fyrir bergnagga og féll tíu metra niður í fláanda, skriðu og aur, og gat stoppað mig þar“ (mbl.is). En mesta hættan við bjargsigið var þó grjóthrunið í bjarginu.

Arnór starfaði alla sína tíð sem trésmiður og var eftirsóttur handverksmaður og oftar en ekki fengin til verka sem þóttu vandasöm og erfið. Hann var mikill skíðamaður og meðal annars var hann tvöfaldur Íslandsmeistari í norrænni tvíkeppni, göngu og stökki.

Arnór var afskaplega skemmtilegur maður, lífsglaður og mikill sögumaður. Hrein unun var að setjast niður með honum og hlusta á hann segja sögur. Undirritaður átti slíku láni að fagna þegar hann sat einn eftirmiðdag með föður sínum, Þórði Júlíussyni, Högna Sturlaugssyni og Arnóri Stígssyni. Tvær sögur voru skráðar eftir þann fund; Smyglið í Rekavík bak Höfn, Tundurdufl í Hornvík, sem birtar voru á heimasíðu (http://vinaminni.blog.is/blog/vinaminni/). En meira hefði þurft að skrá af sögum Arnórs, enda var hann hafsjór af fróðleik um lífið á Hornströndum, sögum og vísum, sem vonandi hafa ekki horfið með honum.

Þrátt fyrir háan aldur var Arnór óvenju ern og hraustur. Fram á síðasta dag var hann að renna sér á göngugrindinni niður rampinn sem liggur milli sjúkrahússins og Eyri, þar sem hann bjó síðustu árin, íbúum til mikillar skelfingar. Arnóri fannst lítið koma til þessa, enda maður sem kleif Jörund á gúmístígvélum og vanur að skíða niður brött fjöll. Arnór varð brákvaddur sunnudaginn 6. maí.

Gunnar Þórðarson

DEILA