Ný staða með Hvalá og hringtengingu

Fossinn Drynjandi í Hvalá.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar gerir ekki athugasemdir við breytingartillögur við aðalskipulag Árneshrepps og tillögu að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun. Bæjarstjórn tekur undir umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar þar sem fram kemur að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi í um áratug horft til Hvalárvirkjunar sem vendipunkt í raforkumálum í fjórðungnum. „Með virkjuninni skapast forsenda fyrir hringtengingu raflína á Vestfjörðum með lagningu línu um Ísafjarðardjúp og orkuframleiðslu sem hefur möguleika á að anna allri eftirspurn á Vestfjörðum, án notkunar jarðefnaeldsneytis. Ótiltæki á Vestfjörðum er í dag með því hæsta sem gerist á landinu og er landshlutanum samfélagslega dýrt, en það er metið á nokkur hundruð milljónir árlega,“ segir í umsögninni

Þá er einnig sagt að með virkjun Hvalár og hringtengingu rafmagns verði komin upp ný staða í raforkumálum á Vestfjörðum „með áður óþekktu raforkuöryggi og reiðuafli sem gefur færi á fjölbreyttum iðnaði sem krefst orku í litlu og meðalstóru magni.“

smari@bb.is

DEILA