Listaverkauppboðið mælist vel fyrir

Verk eftir Reyni Torfason er á uppboði Sigurvonar.

Á laugardag býður krabbameinsfélagið Sigurvon til opins húss í húsakynnum sínum við Pollgötu 4 á Ísafirði á milli klukkan 14 og 17. Heitt verður á könnunni og dýrindis kökuhlaðborð sem gestir geta gætt sér á af. Á opna húsinu fer fram kynning á verkunum sem seld verða á listaverkauppboði félagsins sem nú er hafið og stendur út marsmánuð. Á því er að finna átta verk eftir sex vestfirska listamenn þau: Pétur Guðmundsson, Berglindi Höllu Elíasdóttur, Ólafíu Kristjánsdóttur, Ágúst G. Atlason, Reyni Torfason og Marsibil Kristjánsdóttur.

Tinna Hrund Hlynsdóttir sem er í stjórn Sigurvonar segir viðbrögðin við listaverkauppboðinu hafa verið afar góð, en þetta er í fyrsta sinn sem þessi fjáröflunarleið er farin á þeirra vegum. „Viðbrögðin hafa verið mjög góð, bæði frá listafólki og kaupendum. Við lögðum af stað með að bjóða upp fjögur verk en erum nú með átta á uppboðinu. Listafólk hafði samband og vildi fá að taka þátt í þessu með því að gefa til okkar verk, sem er alveg hreint dásamlegt. Eins og staðan er núna er búið að bjóða í fjögur af átta verkum sem verður að teljast góð byrjun og sum verk hafa fengið fleira en eitt boð.“

Einnig er félagið að selja bindisherðatré, sem hönnuð eru af Oddi Andra sem á og rekur verslunina O-design í Bolungarvík. Herðatrén koma í mörgum litum og eru í formi bindis og var upphaflega hugmynd Odds að búa til hlut þar sem hann gæti haft bindin sín öll hangandi á einum stað. Herðatrén má hins vegar hægt að nota þetta í hvað sem er að sögn Tinnu: „Það má til að mynda geyma skartgripi á þeim eða bara hengja uppá vegg sem punt þar sem að þetta er afskaplega falleg hönnun hjá honum.“

Hægt er að skoða verkin sem eru á uppboðinu á fésbókarsíðu Sigurvonar. Bjóða má í verkin þar í skilaboðum eða með því að senda tölvupóst á sigurvon@snerpa.is

DEILA