Jafnt aðgengi allra barna að íþróttastarfi

Öll börn ættu að eiga þess kost að stunda íþróttir og upplifa þá ánægju sem af starfinu hlýst. Þátttaka barna í íþróttum snýst um svo miklu meira en bara íþróttagreinina sjálfa. Íþróttir hafa mikil áhrif á félagsþroska barna og í íþróttum kynnast börn menningu sem ríkir í íþróttafélagi. Þau læra reglur íþróttarinnar, skrifaðar og óskrifaðar. Í íþróttum læra börn að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, læra að takast á við áskoranir, leggja sig fram, sigra og tapa. Það er því mikilvægt að við sem samfélag leggjum okkur fram um að tryggja öllum börnum aðgengi að fjölbreyttu íþróttastarfi.

Íþróttir fyrir alla

Þegar við tölum um aðgengi að íþróttastarfi þá eru flestir sem hugsa um líkamlegt aðgengi. En aðgengi er svo miklu meira en bara líkamlegt aðgengi þó að það sé ekki síður mikilvægt. Í jafn dreifðu bæjarfélagi og okkar er mikilvægt að huga að samgöngumálum og þar er ljóst að við þurfum að gera betur.

Þátttaka fatlaðra barna í íþróttum

Í okkar bæjarfélagi er metnaðarfullt íþróttastarf fyrir einstaklinga með fötlun og þar hefur íþróttafélagið Ívar verið leiðandi. Aðstandendur félagsins hafa unnið óeigingjarnt starf í fjölda ára. Það eru þó ýmsar áskoranir sem fylgja því að halda úti sérstöku íþróttastarfi fyrir fatlaða í litlu og dreifðu bæjarfélagi eins og okkar, t.d. smægð árganga, aldursbreidd iðkendahópsins er mikil og aukið framboð af íþróttagreinum myndi líklega leiða til fækkunar innan hverrar greinar um sig.

Íþróttastarf fatlaðra er sífellt að fá meiri athygli í íslensku samfélagi og frammistaða fólks með fötlun hefur vakið aðdáun landsmanna. Þar með hafa orðið til frábærar fyrirmyndir, íþróttafólk með fötlun, sem eru fyrirmyndir okkar allra, fatlaðra og ófatlaðra. Þátttaka í eflandi íþróttastarfi eykur bæði lífsgæði og sjálfstraust einstaklinga og gerir samfélagið okkar betra og litríkara fyrir vikið.

Íþróttir geta verið fyrir alla

Þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur jákvæð áhrif á félagsmótun barna og því mikill ávinningur fyrir samfélagið í heild ef við getum tryggt jafnt aðgengi allra barna að íþróttastarfi. Undanfarin ár hefur orðið mikil og nauðsynleg þróun í allri þjónustu við fatlað fólk. Við tölum um að fagna margbreytileikanum, skólar án aðgreiningar, valkvæð búseta, fjölbreytni í atvinnulífi og svo mætti lengi telja. Þó hefur þessi hugmyndafræði ekki enn náð að festast í sessi innan íþróttahreyfingarinnar.

Íþróttir byggja upp öfluga einstaklinga

Styrkleikar og áhugasvið barna liggja á mismunandi sviðum og í ólíkum íþróttagreinum. Það er því mikilvægt að leggja metnað í það að bjóða upp á fjölbreytt úrval íþróttagreina og hvetja börn og ungmenni til að prófa sem flestar þeirra. Með því fá þau tækifæri til að uppgötva styrkleika sína og ástríðu og reyna fyrir sér á nýjum sviðum. Með þessu vinnum við bug á snemmbæru brottfalli úr íþróttum sem hefur aukið forvarnargildi. Í Ísafjarðarbæ er öflugt íþróttastarf og fjölbreyttar íþróttagreinar í boði. En hvernig getum við komið hugmyndafræðinni um íþróttir fyrir alla inn í það starf? Geta börn með fötlun tekið þátt í almennu íþróttastarfi? Svarið er já! Það er þó undir okkur öllum komið að skapa íþróttum umhverfi þar sem allir upplifi sig velkomna, þar sem allir finna til öryggis og eru virtir að verðleikum. Það að auka samþættingu í íþróttastarfi fyrir öll börn mun aldrei skila okkur öðru en jákvæðum ávinningi. Öll börn ættu að vera velkomin að taka þátt í því íþróttastarfi sem hér stendur til boða, ekki bara sum.

Dagný Finnbjörnsdóttir og Þóra Marý Arnórsdóttir

Höfundar skipa 4. og 7. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.