Ísafjarðarbær: afstaðan til laxeldis

Bæjarins besta leitaði eftir afstöðu framboðslista í Ísafjarðarbæ til uppbyggingar á sjókvíaeldi, einkum laxeldi,  í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum.

Sjókvíaeldi hefur síðustu 10 árin verið helsti vaxtarbroddurinn í atvinnumálum á Vestfjörðum og eru nú fimm fyrirtæki með leyfi til eldis í vestfirskum fjörðum. Á síðasta ári varð framleiðslan 27.500 tonn. Á sunnanverðum Vestfjörðum hefur laxeldið snúið við íbúaþróun svæðisins og fólki fjölgar. Talið er að bein störf af eldinu séu þar 160-170 og annað eins í óbeinum.

Nú er að hefjast sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Burðarþolsmat þess er 30.000 tonn en þá á eftir að meta burðarþol Jökulfjarða. Fyrirsjáanlegt er burðarþol þess svæðis töluvert. Þó er aðeins heimilt að ala 12.000 tonn af frjóum laxi í Djúpinu. Bein og óbein störf vegna eldisins í Djúpinu munu skipta hundruðum.

Eftirfarandi fyrirspurn var send öllum framboðslistum: Hver er afstaða listans til uppbyggingar á sjókvíaeldi , einkum laxeldi,  í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum?

Svar Kristjáns Þórs Kristjánssonar oddvita B lista, Framsóknarflokksins:

„Ég styð uppbyggingu sjókvíaeldis í sveitarfélaginu. Fiskeldi hefur haft mikil áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum og er byrjað að hafa áhrif á norðanverðum Vestfjörðum og í okkar sveitarfélagi. Í Dýrafirði eru leyfi fyrir 10.000 tonna eldi, í Önundarfirði er burðarþol fyrir 2.500 tonna eldi og í Ísafjarðardjúpi er burðarþol fyrir 30.000 tonna eldi. Saman gera þetta 42.500 tonna eldi sem er um það bil helmingur þess sem Færeyingar framleiða á ári, og það einungis í fjörðum þar sem Ísafjarðarbær liggur að!

Þess vegna þarf að halda rétt á spöðunum, tryggja að uppbyggingin sé í sátt við umhverfi og samfélag og að réttmætar tekjur skili sér til sveitarfélaganna. Ég tel á þessum tímapunkti enga kýjandi þörf til að ákveða að fara í fiskeldi í Jökulfjörðum, það svæði liggur að friðlandi og hefur verið einn af augasteinunum í okkar ferðaþjónustu. Hinsvegar myndi ég vilja berjast fyrir því að hægt sé að nýta vísindalegt burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar fyrir Ísafjarðardjúp með því að beita mótvægisaðgerðum í Laugardalsá og Langadalsá og þannig verði lína sem kynnt var í áhættumati óþörf.“

Svar Jóhanns Birkis Helgasonar oddvita D lista Sjálfstæðisflokks:

„Á stefnuskránni okkar segir:

  • Beitum okkur fyrir því að ferðaþjónusta og fiskeldi í Ísafjarðardjúpi verði tryggt í strandsvæðaskipulagi.

Með öðrum orðum þá viljum við halda áfram með uppbyggingu á fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Við höfum ekki hafnað fiskeldi í Jökulfjörðum og viljum skoða þann möguleika líka.

Þar sem uppbygging á fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hefur gengið mun hægar en til stóð og leyfismálin eins og þau hafa verið, viljum við byrja á strandsvæðaskipulagi áður en farið verður að úthluta leyfum. Jafnframt þarf að vinna að burðarþolsmat fyrir Jökulfirði.“

Svar Gylfa Ólafssonar oddvita Í lista:

„Í-listinn styður uppbyggingu á sjókvíaeldi sem fylgir öllum lögum, reglugerðum og eftirliti hins opinbera í Ísafjarðardjúpi. Jökulfjörðum skal haldið utan sjókvíaeldis. Þeir sjóðir sem fiskeldisfyrirtækin greiða í, eiga í miklu meiri mæli og með beinskeyttari hætti að nýtast til uppbyggingar innviða og rannsókna í heimabyggð.“

Svar Péturs Óla Þorvaldssonar oddvita P lista, pírata:

„Fiskeldi er áhættusöm atvinnugrein sem getur haft neikvæð áhrif á vistkerfi, og þá sérstaklega í sjókvíaeldi. Gæta þarf sérstaklega að áhrifum fiskeldis á umhverfið. Við viljum að ítrustu varúðar sé gætt, að eftirlit sé stóraukið, að strangar kröfur verði um aðbúnað fiska og að náttúran fái að njóta vafans.  Píratar í Ísafjarðarbæ eru alfarið á móti fiskeldi í Jökulfjörðunum.

Við þurfum eftirlit á svæðið þar sem starfsemin er, svo þarf tíma til að sjá hvaða áhrif þetta er að hafa á firðina. Ef það kemur í ljós að starfsemin er að hafa óafturkræf áhrif á nátturuna þá þurfa fiskeldisfyrirtækin annað hvort að gera róttækar breytingar hjá sér eða hætta starfsemi.

Við munum þurfa að fá stærri hlut af gjöldunum af fiskeldi í sveitafélögin þar sem starfsemin á sér stað. Það gengur ekki að svona stór hluti fjármagnsins sem fæst úr greininni flæðir suður á meðan við eigum í erfiðleikum með rekstur á sveitafélaginu.“





DEILA