Hvest: afskaplega leiðinlegt mál

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir um mál læknaritara sem sagt var upp störfum vera afskaplega leiðinlegt mál allt saman.

„Ég tel að það sé best fyrir alla að leysa svona mál utan fjölmiðla. Ég geri því ekki ráð fyrir að svara þessu á opinberum vettvangi.“ segir Gylfi.

Halldór Jónsson, mágur læknaritarans, vakti athygli á málinu í aðsendri grein á bb.is. Þar kemur fram að 67 gamall starfsmaður stofnunarinnar, læknaritari með 32 ára starfsreynslu, hafi verið gert að yfirgefa stofnunina fyrirvaralaust eftir fund með mannauðsstjóra og „öllum aðgangi að upplýsingakerfum stofnunarinnar lokað og ekki gefið færi á því að kveðja sitt nánasta samstarfsfólk.“

Greinin hefur vakið mikla athygli og hefur verið meira lesin en nokkur önnur grein í langan tíma.

Fram kemur í greininni að athugasemdir við störf læknaritarans hafi verið smávægilegar. Þegar stéttarfélag starfsmannsins og trúnaðarmaður blönduðu sér í málið var starfsmanninum boðið annað starf, sem hann hafnaði.

„Sem stendur reyna nú stjórnendur stofnunarinnar að kaupa sig frá málinu með gerð starfslokasamnings við starfsmanninn án viðurkenningar á því að lítilsvirt hann og brotið á rétti hans. Skattgreiðendur eiga að bæta fyrir mistökin. Ábyrgð stjórnenda á eigin gjörðum á engin að verða. Ríflega 32ja ára reynslu er kastað á glæ og hún einskis metin.“

DEILA