Hvenær verða ósannindi sönn?

Hólmavík. Mynd: Andrea K. Jónsdóttir.

Þegar sama sagan er sögð nógu oft – þá getur tilhneigingin orðið sú að fólk fari að trúa því sem ekki er fótur fyrir. Þegar svo þessari sömu sögu er hampað án gagnrýni í helstu miðlum – þá fer fólk ekki bara að trúa, heldur líta á söguna sem heilagan sannleik. Hvers á hið sanna að gjalda?

Strandabandalagið vann kosningasigur í Strandabyggð í nýliðnum kosningum, fékk alls 160 atkvæði af þeim 266 gildu atkvæðum sem skiluðu sér í kjörkassann. Eðlilega hafa fjölmiðlar fjallað um úrslitin og ber að óska framboðinu til hamingju með árangurinn. Það sem mér finnst hinsvegar miður og geri athugasemdir við, eru fullyrðingar Þorgeirs Pálssonar, oddvitaefnis Strandabandalagsins í fjölmiðlum, að hann hafi unnið mál sem hann höfðaði gegn sveitarfélaginu Strandabyggð eftir að honum var sagt upp störfum? Þessi fullyrðing hans stenst, að mínu mati, ekki skoðun. Hið rétta er að sveitarfélagið vann málið í öllum meginatriðum. Uppsögnin var dæmd lögleg og sveitarstjórn bær til þess að segja sveitarstjóranum upp störfum. Kröfum Þorgeirs um þriggja mánaða biðlaun til viðbótar við þriggja mánaða uppsagnarfrest var hafnað af dómnum og Þorgeiri var gert að greiða sinn eigin málskostnað, þrátt fyrir kröfu hans um annað. Dómurinn komst þó að þeirri niðurstöðu að Þorgeiri bæru miskabætur að fjárhæð 500 þkr. þar sem uppsögnin hafi „.. verið framkvæmd með óeðlilega meiðandi hætti ..“ eins og segir í dómnum. Þessum hluta dómsins hefur sveitarstjórn ákveðið að áfrýja til Landsréttar og því er endanleg niðurstaða alls ekki komin í málið. Siguryfirlýsingar Þorgeirs standast því á engan hátt.

Annað sem Þorgeir heldur fram í fjölmiðlum er að í sveitarfélaginu hafi ríkt „ákveðin öfl“ sem nú sé komin tími á að víki. Mér leikur forvitni á að vita hvaða „öfl“ þetta eru. Í sveitarfélaginu hafa verið kosningar á fjögurra ára fresti líkt og annarsstaðar um landið. Misjafnt er hverjir hafa náð kjöri og hvort fulltrúar hafi setið út allt kjörtímabilið. Í kosningunum 2018 var óhlutbundin kosning, þ.e. engir listar buðu fram og því gátu kjósendur valið hverja þeir vildi inn. Árið 2014 voru 3 listar í boði og allir náðu fulltrúum inn. Árið 2010 voru tveir listar í boði og náðu báðir inn fulltrúum, líkt og í kosningunum núna. Þessi „öfl“ sem Þorgeir talar um eru þá kannski bara „kraftur kjósenda“, íbúarnir sjálfir. Vill Þorgeir að þeir víki? Mér hefur sýnst vera ágætist endurnýjun í sveitarstjórnum Strandabyggðar undanfarinn áratug og skil því ekki þessar aðdróttanir Þorgeirs. En – kannski er þetta bara eins og með „sigur“ Þorgeirs í dómsmálinu, ef þú heldur einhverju fram nógu oft og víða, þá fer fólk að halda að eitthvað sannleikskorn leynist í fullyrðingunum. Mér finnst svona aðferðafræði minna ansi mikið á aðferðir Trumps í Bandaríkjunum á sínum tíma og mér hugnast þær ekki.

Nú leikur mér forvitni á að vita hver sé afstaða annarra listamanna Strandabandalagsins, þá sérstaklega þeirra sem skipa annað og þriðja sætið á listanum og taka sæti í nýrri sveitarstjórn innan tíðar? Er það túlkun þeirra að niðurstaða dómsmáls Þorgeirs gegn sveitarfélaginu feli í sér sigur fyrir Þorgeir og þá á hvaða hátt? Er það trú þeirra að „ákveðin öfl“ hafi haldið sveitarfélaginu í greipun sínum og þá hvaða öfl? Ef þessir aðilar, líkt og ég, telja að þessar fullyrðingar eigi ekki við rök að styðjast – teljið þeir þá rétt að Þorgeir verði starfandi oddviti í sveitarfélaginu? Það getur verið gott að skoða málin vel áður en ráðningarsamningur er undirritaður – ekki síst í ljósi framangreinds dómsmáls.

Lygi verður aldrei sönn þótt hún sé síendurtekin. Er ekki upplagt að leiðrétta vitleysuna strax í upphafi og byrja kjörtímabilið með hreint borð?

Í lokin óska ég öllum nýkjörnum aðal- og varafulltrúum í sveitarstjórn Strandabyggðar hjartanlega til hamingju með niðurstöður kosninganna og þau hlutverk sem þeim fylgja og sendi jafnframt bestu kveðjur á íbúa og velunnara sveitarfélagsins – þetta er dásamlegt sveitarfélag.

Andrea K. Jónsdóttir, fyrrum íbúi og sveitarstjóri í Strandabyggð (2012-2018)

DEILA