Hærri staðla og hærri markmið í íþróttum innan Ísafjarðarbæjar

Ég hef æft íþróttir síðan ég man eftir mér, fyrst var það fótbolti, körfubolti og sund. Síðan fann ég mig vel í fótboltanum og datt úr sundinu og körfunni en hef alltaf haft gaman af því að synda og leika mér smá í körfubolta. Núna spila ég alfarið fyrir íþróttafélagið Hörð, aðallega handbolta en tek einnig þátt í fótboltanum á sumrin. Ég hef ferðast vítt og breitt um landið til að keppa og hef því bæði séð það sem vel er gert og það sem er ekki jafn vel gert hvað varðar íþróttir á Íslandi. Mig langar að miðla af þessari reynslu minni og nýta hana, íþróttastarfsemi í Ísafjarðarbæ til góða.

Skipulag 

Lengi vel hefur verið á dagskrá að skipuleggja betur íþróttasvæðið á Torfnesi, þetta vil ég að verði klárað sem fyrst. Margar útfærslur hafa verið ræddar varðandi skipulag Torfnessvæðisins og er löngu tímabært að gera þessar hugmyndir að veruleika, festa niður hvað við ætlum að gera með svæðið og koma því á dagskrá. Hugmyndir þurfa að verða að veruleika til þess að hafa áhrif en ekki bara vera hugmyndir að eilífu. 

Umgjörð og aðstaða til íþróttaiðkunar í Ísafjarðarbæ 

Margt varðandi umgjörð og aðstöðu hér í Ísafjarðarbæ er eitthvað sem má kalla gamaldags, úrelt eða hreinlega lélegt. Við höfum ekki þróast með tímanum og því orðin eftirbátar annarra. Aðstaðan í dag er að halda aftur af íþróttafólkinu okkar og veldur því að margir ungir íþróttamenn flytji frá svæðinu til að komast í betri aðstöðu til æfinga. Af því leiðir svo að það fækkar verulega iðkendum í eldri flokkum hjá íþróttafélögunum og sú fækkun ýtir svo undir að fleiri hætti bara í íþróttum yfir höfuð þegar örfáir standa eftir í sumum eldri flokkum. Þá verður nánast ómögulegt að halda úti venjulegri starfsemi og virkni í íþróttum. Markmið okkar ætti að vera að halda sem flestum í íþróttum, sama hver íþróttin er. Samgöngur á milli allra byggðakjarna þarf að bæta enn frekar, svo að allir sem vilja stunda íþróttir í Ísafjarðarbæ hafi möguleika á því. Með bættari samgöngum myndum við líka geta nýtt betur öll okkar fjögur íþróttahús og með því fjölgað æfingum hjá öllum íþróttum.   

Kröfur og markmið íþróttafélaga 

Okkar markmið ætti að vera að bæta umgjörð og aðstöðu allra íþrótta í sveitarfélaginu til að styðja við uppbyggingu íþróttafélaganna og þeirra markmið. Tímarnir breytast og mennirnir með –  auknar kröfur eru á aðstöðu og umgjörð og því lykilatriði að allt sé í lagi. Við eigum samt sem áður íþróttafólk sem tekst að gera hreint út sagt ótrúlega hluti, miðað við aðstöðuna sem þau búa við. Ímyndið ykkur hverju þau hefðu áorkað með viðunandi aðstöðu. Ég gæti eytt ófáum orðum í viðbót í að telja upp allt sem þarf að bæta en ætla að láta staðar numið hér. Við sem samfélag þurfum að horfast í augu við að ef ekkert verður gert til að bæta aðstöðuna núna, þá gæti fari svo að iðkendum fækki þar til það verður sjálfhætt. Við þurfum að vinna saman að því að bæta það sem bæta þarf í kringum íþróttirnar og leyfa íþróttafélögunum að hafa eitthvað að segja þegar kemur að ákvarðanatöku um framkvæmdir og viðhaldi, enda eru það þau sem oft vita best hvað þarf að bæta. Við græðum öll á því að halda unga fólkinu okkar í íþróttum eins lengi og hægt er, það er margsannað hversu góð félagsleg áhrif það hefur. Góð undirstaða gefur okkur líka gott veganesti út í lífið. Ef við náum að gera hreyfingu að lífstíl snemma eru meiri líkur á að við stundum hana út ævina og viðhöldum þannig hreysti og heilbrigði, okkur sjálfum og samfélaginu til góða.

Í lokin þá langar mig að taka það fram að ég skrifa þetta frá hjartanu, íþróttir eru mér mjög mikilvægar og væri ég ekki á þeim stað sem ég er núna án þeirra. Ég vil að öll fái að æfa/keppa/njóta þeirrar íþróttar sem þau kjósa, líkt og ég fékk að gera. Ég vona að þú, lesandi góður, hafir haft gaman að lesa þessa stuttu grein hjá mér og hún hafi mögulega varpað smá ljósi á stöðu íþrótta í Ísafjarðarbæ.

Takk fyrir mig

Þráinn Ágúst Arnaldsson

5. sæti á lista Framsóknar