SalMar gerir tilboð í Norway Royal Salmon

Fyrirtækið SalMar í Noregi, sem á m.a. meirihluta í Arnarlax á Bíldudal hefur gert tilboð í öll útistandandi hlutabréf í Norway Royal Salmon , NRS. En það fyrirtæki á eldisleyfi fyrir 36.000 tonna framleiðslu í Troms og Finnmörk í Noregi og meirihlutann eða 51,3% í Arctic Sea Farm á Ísafirði, sem hefur leyfi fyrir 11.800 tonna laxeldi og 5.300 tonna silungseldi, auk minni hluta í tveimur öðrum norskum eldisfyrirtækjum.

Heildarsala NRS á síðasta ári var um 89 þúsund tonn af eldisfiski. Eigin framleiðsla var liðlega 30.000 tonn. Framleiðsla Arctic Sea Farm var 7.443 tonn í fyrra. Hún er áætluð 12 þúsund tonn í ár og 25 þúsund tonn árið 2025.

Samkvæmt frétt í Undercurrent news er tilboðið 270 NOK á hlut sem samsvarar um 3.800 íslenskar krónur. Tilboðið er 12,5% hærra en tilboð frá NTS sem nýlega var gert og er 54% hærra en vegið meðaltal á verðum hlutabréfa NRS síðustu 30 daga fyrir tilboð NTS.

Tilboðið þýðir að NRS er verðlagt á um 165 milljarða íslenskra króna.

Viðbót kl 11:40.

SalMar óskar eftir því að stjórn NRS nýti heimild til þes að gefa út 4,4 milljón nýja hluti og selji SalMar og er skilyrt því að a.m.k. 50% allra hluta fáist keyptir. Vefurinn salmonBusiness segir að staðfest sé að stjórn NRS sé tilbúin til þess að ganga að því að nýta heimildina til hlutafjáraukningarinnar.

Meðal samlegðaráhrifa af sameiningu fyrirtækjanna er talin upp sameining Arnarlax og Arctic Fish.