Örnefnaskilti í Hnífsdal afhjúpuð

Á laugardaginn voru afhjúpuð tvö örnefnaskilti í Hnífsdal að viðstöddu fjölmenni. Um 100 manns komu til að vera viðstödd athöfnina í blíðskaparveðri. Það eru Hnífsdælingarnir Kristján Kristjánsson og Hjörtur Friðriksson sem einkum beittu sér að framgangi málsins með stuðningu margra annarra.

Á skiltunum er mynd af Hnífsdalum og merkt inn á hana örnefni í dalnum. Á öðru skiltinu er mynd af innanverðum Dalnum og horft fram dalinn og á hinu skiltinu eru myndin af utanverðum Dalnum. Alls eru 76 örnefni merkt á skiltunum tveimur.

Íbúasamtökin í Hnífsdal létu vinna myndirnar sem Baldur Smári Ólafsson tók. Fyrirtækið Pixel gerði myndirnar tilbúnar fyrir skiltin. Til þess að greiða fyrir kostnaðinn var notað fé sem safnaðist fyrir 30 árum þegar brottfluttir Hnífsdælingar stóu fyrir kaffisamsæti í Mosfellsbæ fyrir sveitunga sína.

Kvenfélagið Hvöt á um kaffiveitingar sem boðið var upp á við athöfnina á laugardaginn.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Hjörtur Friðriksson.
Feðginin Sigríður Kristjánsdóttir og Kristján Kristjánsson.