Hallsteinsnes- Þórisstaðir boðið út í vetur

Sigurþór Guðmundsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni segist búast við að vegarkaflinn frá Hallsteinsnesi að Þórisstöðum fari í útboð í vetur en getur ekki tímasett það nánar að svo stöddu. Hann staðfestir að eftir undirritun samnings við eigendur jarðarinnar Gröf séu hindranir að baki. Samningur liggur fyrir við eigendur jarðarinnar Teigsskóg sem á eftir að undirrita.

Sigurþór segir að næst sé að undirbúa væntanlegt útboð með því að afla nauðsynlegra upplýsinga. Það þurfi að rannsaka vegarstæðið og skoða efnið sem þar er. Farið verður í skógarhögg og fjarlægð tré úr væntanlegum vegi. Skoða þarf hvort fornleifar leynist þar, ennfremur að bora í klöpp og grafa í jarðveginn til þess að fá upplýsingar sem þarf í útboðslýsingu.

Sigurþór segist búast við að útboðið verði a.m.k. frá Hallsteinsnesi og að Þórisstöðum, það gæti verið lengri kafli en ekki hægt að ákveða það núna. Hann telur verktímann geta verið 2 ár.