Íþróttir: Vestri sigursæll um helgina

Lið Vestra gerðu það gott um helgina í þremur ólíkum íþróttagreinum.

Selfoss: Vestri 0:3

Knattspyrnulið Vestra í karlaflokki lék sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni í knattspyrnu og keppti á Selfossi við heimamenn. Á fyrstu 20 mínútum leiksins gerðu Vestramenn þrjú mörk og eftir það voru úrslit leiksins ráðin. Vladimir Tufegdzic gerði tvö fyrstu mörkin og Nicolaj Madsen það þriðja. Leiknum lauk með 3:0 sigri Vestra.

Vestri : Fjölnir 79:76

Körfuknattleiksli Vestra í 1. deild karla hóf keppni í úrslitakeppni deildarinnar um laust sæti í Úrvalsdeildinni með sigri á Fjölni. Leikið var á Ísafirði. Fjölnir tók forystu í fyrsta leikhluta en Vestri minnkaði muninn jafnt og þétt og tók forystuna skömmu fyrir leikslok og vann 79:76. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann.

Á morgun verður leikið fyrir sunnan en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í úrslitakeppninni. Næst verður keppt í fjögurra liða úrslitum.

Vestri: Gabriel Adersteg 22/4 fráköst, Nemanja Knezevic 15/14 fráköst, Marko Dmitrovic 14/9 fráköst, Hugi Hallgrímsson 11/8 fráköst/8 stoðsendingar, Hilmir Hallgrímsson 11, Ken-Jah Bosley 5, Gunnlaugur Gunnlaugsson 1, Arnaldur Grímsson 0, Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson 0, Blessed Parilla 0, James Parilla 0.

Vestri: Afturelding 3:0

Í blaki hófust einnig átta liða úrslit í efstu deild karla. Vestri vann sig í fyrra upp í deildina og varð í 5. sæti deildarkeppninnar. Í átta liða úrslitum leikur Vestri við Aftureldingu, sem varð í 4. sæti. Fyrri leikurinn fór fram um helgina á Ísafirði og urðu úrslitin frekar óvænt. Vestri vann allar þrjár hrinurnar. Vefurinn blakfrettir.is segir að Afturelding hafi mætt með einungis 8 leikmenn en Vestri hafi verið með sitt sterkasta lið.

Seinni leikurinn verður á miðvikudaginn og ef liðin hafa unnið jafnmargar hrinur verður úrslitahrina, svokölluð gullhrina. Það er mat blakfrétta að Afturelding þurfi að hafa mikið fyrir sigri í seinni leiknum ef Ísfirðingar leiki af jafnmiklum krafti og í fyrra leiknum.