Samfylking: tveir í framboð til viðbótar

Borist hafa tvær framboðstilkynningar í efstu sæti Samfylkingarinnar til viðbótar þeim tveimur sem höfðu áður borist.

Gunnar Tryggvason

Gunnar Tryggvason verkfræðingur, hef ákveðið að gefa kost á sér í oddvitasæti framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Gunnar er Ísfirðingur að uppruna og var aðstoðarmaður Oddnýjar Harðardóttur og Katrínar Júlíusdóttur þegar þær sátu í fjármálaráðuneytinu.   Nú starfar hann hjá Faxaflóahöfnum og er þar sviðstjóri  Viðskiptasviðs.

Gunnar segist í tilkynningu verða talsmaður öflugs, fjölbreytts og nútímavædds atvinnulífs sem hentar landinu öllu. Til þess þarfað efla stoðir menntunar um land allt en jafnframt að auka skilvirkni leyfisveitingaferla, stytta ferðatíma og efla fjarskipti. þó án þess að draga úr áherslum á umhverfisvernd. „Störf án staðsetningar eru ekki lengur fjarlægur draumur heldur hagkvæmur kostur fyrir fyrirtæki og hið opinbera.“

Um sjávarútvegsmáin segir :

„Ég hef upplifað það að mín heimabyggð eins og svo margir aðrir byggðakjarnar á landsbyggðinni hafa blætt fyrir hagræðinguna sem kvótakerfið og framsalið í sjávarútvegi hefur leitt af sér.  Ávinningurinn, auðlindarentan virðist hins vegar renna annað að mestu leiti!  Hvað með að fá hluta hennar aftur heim í hérað?  Slíkar leiðir hafa Norðmenn til að mynda fetað með auðlindarentuna úr orkugeiranum sínum og skapað þannig um hann meiri samfélagslega sátt. 

Taka þarf skref í að jafna aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Á mínum æskuárum litu ungir sjómenn ekki á ‚plássið‘ um borð sem sitt eina tækifæri, alltaf væri hægt að hefja eigin útgerð.  Slíkt er nánast ógerningur í dag og það þarf að laga.“

Sigurður Orri Kristjánsson

Sigurður Orri Kristjánsson býður sig fram í 1. – 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar. Hann var í 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar.

Sigurður er búsettur í Reykjavík en bjó fyrstu 12 árin í Stykkishólmi og næstu 10 ár á Hólmavík.

Hann er 33 ára stjórnmálafræðingur að mennt og er sem stendur meistaranemi í tölfræði við Háskóla Íslands. Sigurður starfar einnig hjá ríkinu á meðferðarheimili fyrir unglinga, er ritstjóri karfan.is, fagmiðli körfubolta á Íslandi og körfuboltalýsandi í sjónvarpi fyrir Stöð 2 Sport.

„Nú er tækifæri fyrir Samfylkinguna að uppfæra ásýnd sína. Vera í senn kjölfestuflokkur fyrir jafnaðarmenn úr öllum áttum sem og andlit ákveðins ferskleika um land allt og í kjördæminu. Ungum frambjóðendum hefur verið treyst í öðrum kjördæmum fyrir sætum ofarlega á lista. Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi ætti að gera slíkt hið sama.“

DEILA