Torfnes – byggt á blekkingum

Saga uppbyggingar á Torfnesi er saga mistaka, í löngum röðum.  Vallarhúsinu var á sínum tíma skellt þarna niður, eins og skrattinn úr sauðaleggnum.  Íþróttahúsið rándýrt og alltof lengi í byggingu.  Gervigrasvöllurinn aðeins of lítill til að vera löglegur fyrir alla leiki.  Frjálsíþróttasvæðinu kastað upp í flýti fyrir unglingalandsmót og sjaldan eða nánast aldrei notað eftir það.  Og körfuboltavöllurinn inni á öryggissvæði grasvallarins og þarf því að víkja.  Svo það helsta sé nefnt.

Kannski er það þess vegna sem sumum finnst það vera í góðu lagi að bæta við einum mistökunum í viðbót með því að reisa fótboltahús á versta og trúlega óhagkvæmasta stað sem er í boði ?

En ég skil það betur núna, hversvegna svona mistök gerast.  Köfum aðeins ofan í þetta mál varðandi knattspyrnuhúsið.

Dagana 8. og 9. febrúar 2015 gekk mikið vatnsveður yfir landið, holræsakerfi bæjarins hér í Skutulsfirði höfðu ekki undan og allt fór á flot.  Knattspyrnusvæðið á Torfnesi var m.a. á kafi í vatni í einhvern tíma og töldu þá margir að keppnisvöllurinn væri endanlega ónýtur.  Í framhaldi af því setti þáverandi meirihluti fram þá stefnu að keppnisvöllurinn yrði lagður með gervigrasi og að settar yrðu snjóbræðslulagnir undir grasið, til að lengja árlegan nýtingartíma.

Örfáum vikum síðar hafði stjórn Boltafélags Ísafjarðar sent frá sér yfirlýsingu þar sem áformunum var fagnað en jafnframt lagt til að kannað yrði hvort að ekki væri hagstæðara að reisa knatthús í stað þess að gera ráð fyrir upphitun á vellinum.  Í framhaldi af því stofnaði BÍ starfshóp sem vann áfram með áðurnefnda hugmynd og skilaði starfshópurinn af sér skýrslu þann 2. júní 2016.

Það er leiðinlegt að þurfa að gagnrýna sjálfboðavinnu manna, en í stuttu máli þá stendur ekki einn stafur óhaggaður eftir af þessari skýrslu.

  • Byggingarkostnaður var talinn vera nálægt 250 milljónum, en stefnir í 550 milljónir samkvæmt síðustu tölum.
  • Rekstrarkostnaður var talinn vera 1,5 milljón króna en er samkvæmt minnisblaði frá Verkís dagsett 15. janúar 2019 er hann sagður á bilinu 35 til 39 milljónir króna á ári.
  • Rekstrarkostnaður upphitaðs vallar er reiknaður út frá hæsta mögulega taxta eða allt að 17 milljón króna árlega. En líklegra væri að völlur af þessari gerð yrði hitaður upp með varmadælu sem gæti tekið kostnaðinn niður í um 3,5 milljónir króna árlega.  Lækkun rekstrarkostnaðar um 15,5 milljónir króna árlega (17-1,5) , talin réttlæta nýja framkvæmd upp á um 250 milljónir króna. Það rétta er hinsvegar að boðaður lægri rekstrarkostnaður upp á 15,5 milljónir árlega er hugsanlega orðinn 30 til 35 milljóna króna hærri árlegur rekstarkostnaður á húsi en á upphituðum velli, að því gefnu að ekki þurfi starfsmann í húsið því þá er munurinn enn meiri.

Í deiliskipulagsvinnu sem sett var af stað vegna þessara hugmynda BÍ/Vestra, var lengst af unnið með tvær mögulegar staðsetningar á hugsanlegu boltahúsi.  Annarsvegar sú staðsetning sem starfshópur BÍ/Vestra hafði lagt til, fyrir framan Vallarhúsið og hinsvegar sunnanverðu við núverandi Íþróttahús á Torfnesi.  Var Verkís fengið til að kostnaðargreina þessa tvo möguleika.

Rétt er að geta þess að minnisblað Verkís, dagsett 28. apríl 2017, er skrifað af einum höfunda BÍ/Vestra -skýrslunnar.  Það eitt og sér kveikir á aðvörunarljósum, a.m.k.  hjá undirrituðum og sá spyr sig hvort að það kunni að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Auðveldlega má með rýni í gögn og sanngjörnu tjónamati á þeim mannvirkjum sem verða fyrir skemmdum vegna framkvæmda, sýna fram á allt aðra niðurstöðu.

Að lokum ætla ég að setja hér fram eina samanburðartöfluna í viðbót, þar sem bornir eru saman fjórir möguleikar.  Tillaga 1 er knattspyrnuhús framan við Vallarhúsið.  Tillaga 2, 2a og 2b gera allar ráð fyrir knattspyrnuhúsi sunnan við núverandi íþróttahús (og mögulegri framtíðartengingu við íþróttahúsið, íþróttamiðstöð) ásamt endurnýjun á gervigrasi á æfingarvellinum.

Eins og sjá má, gefur tillaga 1 ekki bara verstu nýtinguna á Torfnesinu og minnstu möguleikana á að nýta knattspyrnuhúsið sem fjölnotahús, heldur bendir flest til þess að það sé dýrasti kosturinn!

Að sjálfsögðu þarf að vanda til allra opinberra framkvæmda, þegar farið er með skattpeninga almennings.  Og það er augljóst að þegar fara á í framkvæmdir af þessari stærðargráðu, þarf að vanda sérstaklega vel til verka og tryggja að byggt sé á traustum gögnum við alla ákvarðanartöku og greinargóð rök séu á bak við hverja ákvörðun.  Mér sýnist augljóst að hingað til hafa gögn í málinu ekki verið traustsins verð og rökin oft á tíðum lítil og léleg.

Að æða áfram með málið, án nokkurrar endurskoðunar er að mínu mati ígildi þess að samþykkja og taka þátt í blekkingu.

 

Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi

DEILA