Bíldudalsvogur: grútur ógnar fuglalífi

Alvarleg grútarmengun er á Bíldudalsvogi. Þar er mikil mergð af múkkanum eins og myndin gefur til kynna. Úlfar B. Thoroddsen er að vakta æðarvarpið í voginum. Hann segir að múkkinn eigi ekki að hafa náttúrulegt fæðuframboð á voginum.

„Krásirnar koma líklegast frá  vinnslu eldisfisks. Grúturinn er mikil ógn við allt fuglalíf  við ströndina og úti á voginum og verst munu ungar allra andategunda og gæsa fara út úr þessu þegar þeir fara til sjávar.“ segir Úlfar.

Æðarvarpið er töluvert og 700 – 800 hreiður eru í varpinu.

„Hver æðarungi (kolla) getur verið um 100.000 kr. virði komist hann upp og nytjist og nái að lifa langa ævi. Hver verður kallaður til ábyrgðar fyrir fuglana sem grúturinn drepur?“

Anton Helgason hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða skoðaði aðstæður þarna fyrir viku. Hann segir að hreinsistöð á vegum Arnarlax hafi stoppað. Hún komst aftur í gang en það eru rekstrarerfiðleikar með þessa nýju stöð að sögn Antons.

Vonast er til þess að hreinsistöðin verði komin í lag innan skamms.