Fiskeldi: Samráðsnefnd vill rökstuðning fyrir bannlínu í Djúpinu

Samráðsnefnd um fiskeldi hefur farið yfir nýtt áhættumat Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var 19. mars og hefur sent stofnuninni ráðgefandi álit sitt.

Í áhættumatinu er einkum litið til hugsanlegra áhrifa af laxeldi í sjó á villta laxastofna og kemur fram í ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar hversu mikið stofnunin telur að ala megi af laxi á einstökum svæðum. Áhættumatið var fyrst unnið fyrir þremur árum og þá bar helst til tíðinda að lokað var fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Nú komst Hafrannsóknarstofnun að þeirri niðurstöðu að heimila laxeldi að 12 þúsund tonnum utan línu frá Ögurnesi í Æðey og þaðan  um Hólmasund í Snæfjallaströnd.

Samráðsnefndin staldrar við nokkur atriði og vill frekari rökstuðning. Eitt af þeim er framangreind lína í Ísafjarðardjúpinu og segir í áliti nefndarinnar að þörf væri á nánari útskýringa og rökstuðnings vegna staðsetningar línunnar, m.a. með hliðsjón af almennri reglu sem er í reglugerð um fjarlægð eldiskvía frá veiðiám.

Þarna er samráðsnefndin að vísa til ákvæðis sem verið hefur í reglugerð og bannar að eldiskvíar séu nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði sl. 10 ár en 5 km. Sé meðalveiðin yfir 500 laxar þá er lágmarksfjarðlægðin 15 km. Línan sem Hafrannsóknarstofnun dregur er mun utar en þetta ákvæði kveður á um. Vill samráðsnefndin að þessi lína verði betur rökstudd af hálfu Hafrannsóknarstofnunar og hvort tekið hafi verið tillit til mótvægisaðgerða fiskeldisfyrirtækjanna. Segir ennfremur að rædd hafi verið tillaga um breytingu á þessum svæðistakmörkunum sem yrði háð tilteknum skilyrðum.

Af sex nefndarmönnum stóðu fjórir að þessari afgreiðslu. Það voru Kristján Skarphéðinsson, formaður, Bjarni Jónsson varaþingmaður fulltrúi Umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Kristján Þórarinsson, fulltrúi SFS og Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir fulltrúi sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ragnar Jóhannson, fulltrúi Hafrannsóknarstofnunar ákvað að skrifa ekki undir álit nefndarinnar þar sem því var beint til stofnunarinnar og Elias Blöndal Guðjónsson fulltrúi Landssambands veiðifélaga skilaði séráliti þar sem hann lýsti andstöðu við tillögur um aukið eldi og alveg sérstaklega telur hann fráleitar hugmyndir um að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Önnur atriði sem samráðsnefndin tekur fyrir í áliti sínu og vill fá frekari rökstuðning fyrir eru:

breytingar á stuðlum fyrir endurkomu á strokfiski, en þeir eru lækkaðir,

óbreytt 4% þröskuldsgildi fyrir ásættanlega innblöndun eldislaxa í laxveiðiár,

fá nánari upplýsingar um það hvernig mótvægisaðgerðir eru metnar og áhrif þeirra á áhættumatið og loks vill samráðsnefndin frekari rökstuðning fyrir því hvernig mismunandi stærð seiða hefur áhrif á það magn sem leyft er að ala í kvíum.

Samráðsnefndin er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis.

Hlutverk samráðsnefndarinnar er að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættu­mat erfðablöndunar byggist á, áhættu vegna sjúkdóma og sníkjudýra, aðra rekstraráhættu í fiskeldis­starfsemi og framkvæmd eftirlits með starfsemi fiskeldisfyrirtækja.

Samráðsnefndin veitir Hafrannsóknastofnun ráðgefandi álit um tillögu að áhættumati erfða­blönd­unar.

DEILA