Daníel: ferðaþjónustan skilin eftir

Daníel Jakobsson, Ísafirði segir blasa við þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru metnar að ekki standi til að bjarga ferðaþjónustunni. Hann segir að óbreyttu muni meiri hluti ferðaþjónustunnar ekki lifa af yfirstandandi þrengingar.

„Það þarf sérpakka fyrir ferðaþjónustuna en það kom nánast það gagnstæða, pakki fyrir alla nema ferðaþjónustuna.“ Daníel segir að hlutabótaleiðin hafi þó hjálpað til.

Daníel, sem stendur að rekstri umsvifamikillar ferðaþjónustu á Ísafirði, bæði í gistingu og veitingarekstri, segir að ferðaþjónustan komi einna verst út úr kórónaveirufaraldinum. Staðan sé núna mjög þung. Nánast engin velta hafi verið í mars og apríl. Daníel segir að það vanti 20 milljónir króna tekjur í apríl miðað við síðasta ár. Sama sé fyrirsjáanlegt fyrir maímánuð.

Fyrirtækið er rekið yfir veturinn með 80 miljóna króna tapi sem við venjulegar aðstæður er greitt niður með tekjum af sumrinu.  Launagreiðslur voru 150 milljónir króna í fyrra og starfsmenn voru 60 yfir sumarið. Að sögn Daníels er launakostnaður langstærsti útgjaldaliðurinn eða um 50%.

„Útlitið er ekki gott. Það er von um einhverja traffík fram á haustið. En það verða erfiðir tímar fyrir vestfirska ferðaþjónustu næsta vetur. Það er engin innistæða fyrir launahækkuninni nú í apríl.“

Fella niður skatta og gjöld

Aðspurður um aðgerðir sem hann vildi sjá nefndi Daniel að fella mætti niður tryggingargjald um nokkurra mánaða skeið og mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð auk þess að hætta við umsamdar kauphækkun.

Daníel segist skilja  að ekki verður hægt að bjarga öllum en segir að það hljóti að vera sanngjarnt gagnvart atvinnugreininni sem þetta kemur lang verst við að allt mögulegt sé reynt til að tryggja að a.mk. megin þorri ferðaþjónustufyrirtækja lifi þetta af.

DEILA