Tálknafjörður: útsvarstekjur frá Vesturbyggð umtalsverðar

Tekjur Tálknafjarðarhrepps af útsvari Tálknfirðinga sem vinna við sjávarútveg í Vesturbyggð eru umtalsverðar. Samkvæmt upplýsingum frá Odda hf á Patreksfirði, sem er stærsta útgerðarfélagið á svæðinu  og það eins sem starfrækir fiskvinnslu eru 15 – 20 manns sem vinna hjá fyrirtækinu í  8 – 11 heilsársstörfum búsettir í Tálknafirði. Störfin skiptast þannig að 3-4 eru á sjó og 5 -7 í landi. Útsvarstekjur Tálknafjarðar af starfsmönnunum voru árið 2017 6,7 milljónir króna; 8,9 milljónir króna 2018 og á síðasta ári voru tekjurnar 11,6 milljónir króna.

Árið 2017 voru útsvarstekjur Tálknafjarðarhrepps af starfsmönnum Odda hf 5,21% af útsvarstekjum hreppsins og 6,49% á árinu 2018. Hlutfallið liggur ekki fyrir 2019 þar sem ársreikningur sveitarfélagsins er ekki tilbúinn.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ákvað fyrr í vetur að afnema vinnsluskyldu á veiddum byggðakvóta á þessu ári. Fyrrverandi sveitarstjóri Tálknafjarðar, Bryndís Sigurðardóttir, gagnrýndi þessa ákvörðun sveitarstjórnar í aðsendri grein á bb.is í janúar síðastliðnum og sagði þar m.a.:

„Sömuleiðis þarf sveitarstjórn að útskýra fyrir íbúum á Tálknafirði sem starfa hjá Odda á Patreksfirði, einu hvítfiskvinnslunnar á sunnanverðum Vestfjörðum hvers vegna þarf ekki að vernda þeirra störf, en samkvæmt opinberu íbúatali og upplýsingum frá Odda er um 7% íbúa Tálknafirði á aldrinum 20-67 starfsmenn Odda.“

og greininni lauk á þessum orðum:

„afnám vinnsluskyldu þýðir einfaldlega að útgerðir mega selja hæstbjóðanda aflann og taka til sín allan arðinn af byggðakvótanum. Og gildir þá einu hvort atvinnuöryggi Tálknfirðinga sé stefnt í voða.“