Mögulegt kóronasmit í Sirrý ÍS

Áhöfnin á Sirrý ÍS frá Bolungavík bíður niðurstöðu úr sýnum sem tekin voru af tveimur skipverjum í dag og er henni haldið í svokallaðri úrvinnslusóttkví á meðan. Skipið kom úr róðri í gærkvöldi. Ástæða sýnatökunnar er að einn í áhöfninni hefur verið í samskiptum við einstakling sem hefur greinst með smit. Vonast er eftir því að niðurstöðu liggi fyrir á miðvikudag, en það ræðst af flugi, en koma þarf sýnunum suður til greiningar.

Guðbjartur Flosason, útgerðarstjóri hjá Jakob Valgeir ehf sagði í samtali við Bæjarins besta að lítið væri hægt að segja fyrr en niðurstöður sýnatökunnar liggja fyrir.