Laxeldi í Dýrafirði: álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir

Skipulagsstofnun hefur afgreitt skýrslu Arctic Sea Farm um mat á umhverfisáhrifum af 10.000 tonna laxeldi í Dýrafirði og liggur álit stofnunarinnar nú fyrir.  Umsókn fyrirtækisins fer nú til Umhverfisstofnunar, sem veitir starfsleyri og til Matvælastofnunar sem gefur út rekstrarleyfi. Vonast er til þess að leyfin verði gefin út fljótlega.

Arctic Sea Farm hefur þegar leyfi fyrir 4.200 tonna eldi í Dýrafirði en lagði inn 2018 umsókn um aukningu upp í 10 þúsund tonn.

Frummatsskýrsla var lögð fram í júli 2018 og matsskýrsla í apríl 2019 og óskaði Arctic Sea Farm þá eftir áliti Skipulagsstofnunar. Stofnunin staðfesti móttöku skýrslunnar í janúar 2020.

Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út að burðarþol Dýrafjarðar fyrir fiskeldi sé 10.000 tonn.

Eldissvæðin eru í Haukadalsbót, við Gemlufall, Eyrarhlíð og Skagahlíð.

Skipulagsstofnun telur að litlar líkur séu á því að eldið smiti villta laxfiska en muni auka lúsaálag á þá litlu stofna laxfiska sem eru í Dýrafirði.

Hafrannsóknarstofnun telur samkvæmt áhættumati sínu á erfðablöndun að hægt sé að leyfa 10.000 tonna eldi án þess að laxastofnar í þeim ám sem matið tekur til skaðist. Skipulagsstofnun gerir það mat að sínu en bætir þó við að líta verði til laxastofna í öðrum ám og segir að fyrirhugað eldi komi til með að hafa nokkuð neikvæð á villta laxastofna á Vestfjörðum. Vill stofnunin að í rekstrarleyfi verði sett skilyrði um notkun ljósastýringar, lágmarksstærð útsettra seiða og hámarksstærð netmöskva í kvíum.

Þá segir í áliti Skipulagsstofnunar að kvíarnar muni sjást víða í Dýrafirðinum og telur það neikvætt.

Lokaniðurstaða Skipulagsstofnunar er að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar og lýsi framkvæmdunum á fullnægjandi hátt.

 

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!