Ísafjörður: Salóme Katrín gefur út sitt fyrsta lag!

Nokkuð er látið af meintri einangrun norðanverðra Vestfjarða – Ísafjörður er t.d. í hugum flestra afskekkt (eins og Ísland var einusinni) og á til að lokast af svo dögum skiptir þegar veður eru válynd. Þau sem ekki vissu betur gætu ímyndað sér að slíkt umhverfi væri síst heppileg útungunarstöð fyrir tónlistarfólk á heimsmælikvarða

Ísfirðingar sjálfir láta sér hinsvegar fátt um finnast og afsanna slíkar kenningar fyrirhafnar- og hugsunarlaust. Gott dæmi um þetta er Salóme Katrín, söngkona og tónskáld sem nú kynnir sína fyrstu opinberu útgáfu, lagið Don’t take me so seriously („Ekki taka mig svona alvarlega“). Fjarlægð og einangrun geta nefnilega, með réttu hugarfari, orðið frjór jarðvegur fyrir einstakt sjónarhorn og blómstrandi ímyndunarafl.

Þetta má vel heyra í áðurnefndu lagi, Don’t take me so seriously, sem er það fyrsta sem kemur út af stuttskífu Salóme Katrínar, WATER, sem er væntanleg í verslanir, á streymisveitur og vonandi í útvarpið með vorinu. Í laginu biðlar Salóme til hlustandans að taka sig ekki of alvarlega, hún er bara eitthvað að spá. Lagið á sér rætur í dægurtónlist allra tíma, samið af kunnáttu og leikgleði. Yfir vötnum svífur andi Reginu Spektor og hennar einlægu mansöngva, en einnig má heyra óm af einbeittum tilfinningaleik Kate Bush. Þessa áhrifavalda, auk annarra, má greina með góðum vilja, en engu að síður eru þau áhrif á ská og skjön, úr fjarlægð – hér er heimurinn upplifður frá jaðrinum, eins og hann kemur fyrir sjónir í skugga snjóugra fjallstinda, gegnum veika tengingu við hvað það sem telst til heimsins hverju sinni.

„Ekki taka mig svona alvarlega,“ syngur Salóme Katrín Magnúsdóttir um leið og hún geislar tilfinningum og opnar hlustandanum innsýn í hugarheima sína. Hafa ber í huga að það sem þið deilið er á tilgátustiginu, allar tengingar eru ímyndaðar. Við erum að hugsa upphátt. Varðveittu það, hugaðu að því. En ekki taka því of alvarlega. Við hlustum, frekar en að hlýða; við fylgjumst með, við finnum til með, en við fylgjum ekki.

Salóme Katrín nýtti æsku sína á Ísafirði, með öllu sínu frelsi og frítíma, til hins ýtrasta. Heltekin af tónlist eyddi hún dögunum í að stúdera og rannsaka tónlist af öllum gerðum, vopnuð þéttpökkuðum 160gb iPod Classic. Af andakt kynnti hún sér tónskáld og tónlistarfólk sögunnar, allt frá Chopin til Ninu Simone til Kanye West og Joni Mitchell og allt þar á milli. Þegar hún var ekki límd við iPodinn æfði hún svo ballet, píanó og söng í þartilgerðum stofnunum, sem Ísafjörður státar af. „Einangrun“ frá heiminum, bæði landfræðilega og félagslega, gaf henni tíma og rými til að finna sína eigin rödd og móta sína nálgun á tónlist og listir, á eigin forsendum, í eigin takti.

Þessi þolinmæðisvinna hefur þegar skilað sér. Síðan hún hóf að flytja eigin tónlist fyrir almenning á síðasta ári hefur þessi 24 ára listakona hlotið mikið lof frá aðdáendum tónlistar sem fagfólki í stéttinni, hennar góði orðstír fer vaxandi hvar sem hún kemur við, hvort heldur er á sviði öldurhúsa, stofutónleikum, menningarstofnunum eða hátíðum á borð við Aldrei fór ég suður. Líkt og áður sagði mun fyrsta opinbera útgáfa hennar, lagið Don‘t take me so seriously, sigla öldur ljósvakans frá og með föstudeginum 13. mars, en EP skífan WATER er væntanleg á 12“ vínyl og stafrænum miðlum undir lok aprílmánaðar.

Í sínum fyrstu lögum sem koma fyrir sjónir almennings kannar Salóme Katrín víðlendur hugans; umskipti, missi, von og ást, á slíkan hátt að hlustandinn getur ekki annað en hrifist með og tekið undir með henni þar sem hún dregur upp skýrar myndir af dofnandi æsku og óttablandinni von um hið óþekkta. „Ætli megi ekki segja að þessi tilteknu lög endurspegli tiltekinn tíma í mínu lífi – þau eru e.k. tilraun til að koma í orð þeim tilfinningum er fylgja stórtækum breytingum og þeim hugarferlunm sem við beitum til að skilja okkur sjálf á slíkum stundum. En ég er sko ekkert föst í þannig pælingum– maður heldur bara áfram. Þeir listamenn sem ég tigna hafa allir víðsýni og sveigjanleika að leiðarljósi – heiðarleika, ráðvendni og forvitni – sem er heimssýn sem mér hugnast. Þannig er það eina sem ég get sagt um það sem kemur næst, er að það mun mótast af hverju því sem er á leiðinni, hverju því sem er í gangi. Ég er svona að þróa með mér orðaforða til að tala um heiminn eins og hann horfir við mér. Það er svoldið eins og að læra nýtt tungumál,“ segir Salóme Katrín.

LAGIÐ: https://orcd.co/memayom