Ísafjarðarbær áréttar mikilvægi Reykjavíkurflugvallar

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í fyrradag var rætt um framkomna þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem flutt er af allmörgum alþingismönnum.

Bæjarstjórnin samþykkti með atkvæðum allra bæjarfulltrúa eftirfarandi bókun.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áréttar mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landsbyggðina.
Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlands- og sjúkraflugs og sinnir þannig brýnum öryggishagsmunum almennings. Eina hátæknisjúkrahús landsins rís nú við Hringbraut í Reykjavík og sú staðsetning er ákveðin vegna nálægðar við flugvöllinn, mínútur telja þegar mannslíf eru í húfi og því er mjög mikilvægt að horft sé til sjúkraflugs þegar ákvarðanir af þessu tagi eru teknar. Opinber þjónusta er í auknum mæli að færast til höfuðborgarinnar og er mikilvægi góðra og hraðra samgangna til Reykjavíkur í raun að aukast. Langflestar höfuðstöðvar opinberra stofnanna eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og þurfa íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög á landsbyggðinni að hafa gott aðgengi að þeim sem og annarri þjónustu einkaaðila sem í mörgum tilfellum er eingöngu að finna á höfuðborgarsvæðinu. Aðgengi allra landsmanna að þjónustu, hvort sem hún er opinber eða frá einkaaðilum, þarf að vera í samræmi við þarfir nútíma samfélaga.