Ari Trausti: bendir á fiskeldið

Ari Trausti Guðmundsson, alþm. Vinstri grænna bendir sérstaklega á fiskeldi sem vaxtarmöguleika í matvælaframleiðslu á Íslandi í grein sem hann ritar og birtist í Morgunblaðinu í gær.

Í greininni fjallar Ari Trausti um matvælaframleiðslu á Íslandi á tímum loftslagsbreytinga og stöðugrar mannfjölgunar.  Segir hann að „Matarholan Ísland er ekki tálsýn. Mikil framleiðsla
til útflutnings á að vera markmið og eitt helsta keppikefli samfélagsins, samhliða kolefnishlutlausu landi fyrir 2040.“ Bendir hann einkum á nýsköpun sem helsta lykilinn að öflugri matvælaframleiðslu.

Framleiðsla dýraafurða, sjálfbær og byggð á dýravernd, verður ávallt takmörkuð hér vegna aðstæðna segir Ari Trausti og að kjötrækt og annar matur búinn til með frumuræktun sé fjarlæg sýn.

Grænmeti úr sjó og af landi getur seint eða aldrei komið í stað lifandi prótíngjafa.

Það sé staðreynd að haf þekur 2/3 jarðar en land 1/3 sem beinir athugun á möguleikunum að framleiðslu í sjó. „Matvælaframleiðslu á landi eru takmörk sett. Höfin, sem seint verða heimkynni manna, eru þar með gríðarlega mikilvæg sem uppspretta fæðu, einkum prótíns og fitu.“

Ari Trausti segir að fiskveiðar á heimsvísu hafi næstum náð þolmörkum þannig að niðurstaða hans er:

„Vöxtur fiskneyslu felst í fiskeldi að stærstum hluta.“

DEILA