Lýðskólinn á Flateyri stækkar og stofnar alþjóðabraut

Aðalfundur Lýðskólans á Flateyri var haldinn um helgina og samþykkti einróma að fela stjórn og skólastjóra að hefja nú þegar undirbúning nýrrar brautar við skólann. Brautin verði kennd á ensku og miði að því að kynna nemendum samfélag og náttúrur á norðurslóðum. Markhópurinn eru erlendir nemendur. Skólinn vill með þessu styrkja starfsemi sína með nýrri stoð samhliða því að vera virkur þátttakandi í uppbyggingu og samfélagsþróun á Flateyri.

Nemendagarðarnir Sólborg

Á fundinum var einnig samþykkt tillaga að nafni á nemendagarða Lýðskólans sem eru í húsnæði því sem áður hýsti bæði heilsugæsluna og dvalarheimili aldraðra. Samþykkt var að húsið myndi heita Sólborg.

Þrjú ár eru nú liðin frá stofnfundi skólans þar sem tæplega 30 nemendur stunda nú nám á tveimur brautum. „Okkur hefur gengið allt í haginn“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri: „Aðsókn að skólanum er góð, útskrifuðum nemendum gengur vel og almenn ánægja er með það nám sem við bjóðum upp á. Stór hluti af sérstöðu skólans er nám á forsendum hvers og eins, þar sem nemendur eru bæði hluti af nemendasamfélaginu í skólanum en einnig hluti af þessu einstaka samhenta samfélagi hér á Flateyri. Skólinn vill leggja áherslu á samspil einstaklingsins við mannlíf, listir og náttúru. Hér lærir fólk að lifa andspænis náttúrinnni og sýna henni virðingu en við lærum líka að lifa með henni og af henni. Á þessi atriði hefur virkilega reynt síðustu vikur, en eftir stendur sterkur og samhentur nemendahópur sem deilir reynslu sem fæstir upplifa í sínu lífi.“ Skólinn undibýr nú inntöku nemenda fyrir næsta skólaár, samhliða þróun nýrrar brautar sem áformað er að opni haustið 2021.