Ísafjarðarbær: Ráðning bæjarstjóra á morgun

Ráðning nýs bæjarstjóra verður tekin fyrir á bæjarstjórnarfundi á morgun. Fundurinn verður haldinn kl. 17:00 í Félagsheimilinu á Suðureyri.

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að ráða Birgi Gunnarsson í starf bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og samþykkja framlagðan ráðningarsamning. Áætlað er að Birgir hefji störf 1. mars n.k.

Meðal annarra mál verður tillaga að sérreglum fyrir byggðakvóta fiskveiðiársins 2019/2020 á Flateyri og umsögn bæjarstjórnar um drög að frumvarpi um sameiningu sveitarfélaga sem fela í sér breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum.

Bæjarráð telur að lögin muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi sveitarfélaga, styrki þau og auðveldi að veita betri þjónustu og það telur mikilvægt að Jöfnunarsjóði séu tryggð framlög til að styðja við sameiningar sveitarfélaga.