Walvis ehf og samstarfsaðilar : útgerð trúverðug en vinnslan veik

Byggðastofnun segir í greinargerð sinni um umsóknir sem bárust um sérstakan byggðakvóta á Flateyri að áform útgerðarinnar í umsókn Walvis ehf og samstarfsaðila séu trúverðug og styrki umsóknina en hins vegar sé fjárhagur vinnslunnar veikur og arðsemi í saltfiskverkun sé mjög lág. Vinnslan hafi heldur ekki nægilegt húsnæði til þess að vinna það magn sem gefið er upp. Í heild áætlar umsækjandi að 15 ný störf skapist til viðbótar við þau sem verður viðhaldið, segir í greinargerðinni.

Áætlað er að vinna 1.200 tonn af bolfiski þar af leggja samstarfaðilar til 400 tonn og 400 verða keypt á markaði. Útgerðirnar selja fisk til vinnslunnar á verðlagsstofuverði. Útgerðir í umsókninni eru með dragnótabáta og einn togara og einn smábát. Minni bátarnir munu veiða fyrir vinnsluna frá vori fram á haust og fara síðan á innfjarðarrækju. Togarinn mun veiða fyrir vinnsluna yfir háveturinn en annars vera á úthafsrækjuveiðum. Betri nýting fæst á útgerðina með þessu móti og hráefni til vinnslu verður betur tryggt. Walvis er með 4 starfsmenn sem vinna í saltfiski og við fiskmarkað. Ætlunin er að bæta við 8 nýjum störfum í landi hjá Walvis og 2 störfum í landi hjá Tjaldtanga í fullvinnslu pökkun á rækju í neysluumbúðir. Walvis þarf að bæta við sig húsnæði til að vinnslan anni útgerðinni.

Byggðastofnun segir um umsóknina að áform útgerðarinnar séu trúverðug og styrki umsóknina. En á móti sé fjárhagur vinnslunnar á Flateyri veikur og arðsemi í saltfiskverkun sé mjög lág.

Þá segir að gert sé ráð fyrir að  auka úthald hvers báts og skapa í raun 4,5 ársstarf á vinnusóknarsvæðinu auk þess að styðja rækjuútgerð sem ætti að styrkja Kampa. En áform um að skipta rækjukvóta yfir í bolfisk minnki hráefni til Kampa.

Tjaldtangi og Útgerðarfélagið Ískrókur, sem standa að umsókninni,  eru samtals með 738 þorskígildistonna kvóta, 544 þ.ígildistonn í rækju og 194 þorskígildistonn í bolfiski. Allar útgerðirnar eiga rétt á almennum byggðakvóta á fiskveiðiárinu. „Ætlunin er að vinna 1.200 tonn af bolfiski. Mótframlag umsækjenda til vinnslunnar á Flateyri er sagt vera 400 tonn af bolfiski í formi eigin heimilda, almenns byggðakvóta og leigukvóta. Einnig 400 tonn af rækju til Kampa á Ísafirði. Ætlunin er að kaupa á markaði 400 tonn.“