Vegir lokaðir á norðanverðum Vestfjörðum

Varðskipið Þór í Sundahöfn á Ísafirði. Mynd: Eggert Stefánsson.

Vegir eru enn lokaðir á norðanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Eyrarhlíð er lokaður  og nýjar upplýsningar verða gefnar kl 17. Skutulsfjarðarbraut er opin undir eftirliti. Súðavíkurhlíð er lokuð.  Lokað er til Suðureyrar. Flateyrarvegur er lokaður. Opið er til Bolungavíkur frá Hnífsdal.

Djúpvegur er lokaður inn í Ögur og Steingrímsfjarðarheiði er lokuð. Búið er að opna Þröskulda. Vegir eru færir á sunnanverðum Vestfjörðum frá Bíldudal um Hálfdán og Mikladal til Patreksfjarðar og þaðan áfram yfir Kleifaheiði. Þaðan er fært suður en þæfingur á KLettháls.

Lokað er fyrir umferð um gömlu byggðina í Súðavík vegna snjóflóðahættu, sem og vegurinn um Hafrafellsháls í Skutulsfirði. Þá er fólk beðið um að vera ekki á ferðinni við hafnarsvæðið á Suðureyri vegna flóðbylgjuhættu.

Í gildi er viðvörun Veðurstofunnar vegna veðurs á norðanverðum Vestfjörðum. Þar er norðan 15-23 m/s, hvassast á heiðum. Snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni.  Veðurhorfur næsta sólarhringinn eru:

Norðaustan 13-20 m/s, skafrenningur og dálítil snjókoma, en dregur úr vindi og úrkomu í dag. Norðaustan 5-13 og úrkomulítið seint í kvöld. Austan og síðar suðaustan 5-13 og bjart með köflum á morgun. Frost 0 til 5 stig.

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra sendi frá sér áðan tilmæli til íbúa á Suðureyri um að  vera ekki úti eða á ferli á eftirtöldum svæðum: Aðalgötu, Eyrargötu, Skipagötu, Skólagötu, Freyjugöta, hafnarsvæði og neðan Sætúns. Um er að ræða varúðarráðstöfun.

Flugi til Ísafjarðar hefur verið aflýst í dag.

DEILA