Kómedíuleikhúsið fær listamannalaun

Rétt í þessu var birt úthlutun listamannalauna. Úthlutunarnefndir Launasjóðs listamanna hafa lokið störfum vegna úthlutunar listamannalauna árið 2020.

Til úthlutunar úr launasjóðnum eru 1.600 mánaðarlaun, alls var sótt um 11.167 mánuði. Árangurshlutfall sjóðsins er því 14%, reiknað eftir mánuðum. Fjöldi umsækjenda var 1.543. Listamannalaun fá 325 listamenn.*

Starfslaun listamanna eru 407.413 kr. á mánuði samkvæmt fjárlögum 2020. Um verktakagreiðslur er að ræða.

Launasjóður sviðslistafólks úthlutaði Kómedíuleikhúsinu 5 mánaða laun. Það fellur í hlut þeirra Björns Thoroddsen, Marsibil G. Kristjánsdóttur, Sigurþórs Alberts Heimissonar.

Ísfirðingurinn  Halldór Smárason fékk 6 mánaða laun úr launasjóði tónskálda.

Ísfirðingurinn  Eiríkur Örn Norðdahl fékk 12 mánaða laun úr launasjóði rithöfunda og Þingeyringurinn  Vilborg Davíðsdóttir hlaut 9 mánaða laun.

Menntamálaráðherra skipaði stjórn listamannalauna í október 2018. Skipunin gildir til 1. október 2020. Stjórn hefur yfirumsjón með sjóðunum og ber að sjá til þess að farið sé að lögum og reglum.

Stjórnina skipa:

  • Bryndís Loftsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar.
  • Hlynur Helgason, tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna.
  • Markús  Þór Andrésson, tilnefndur af Listaháskóla Íslands.