Árneshreppur: breytingar á aðalskipulagi vegna Hvalárvirkjunar

Sveitarstjórn Árneshrepps samþykkti á fundi sínum á föstudaginn  skipulags- og matslýsingu vegna breytngar á aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025 og
vegna nýs deiliskipulags vegna Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði, sbr.30.gr. skipulagslaga nr.
123/2010. Skipulagsfulltrúa var falið að kynna hana í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar.

Þórður Már Sigfússon, skipulagsfulltrúi sagði samtali við Bæjarins besta að nú verði unnar breytingartillögur við aðalskipulagið sem byggist á samþykktri matslýsingu. Þær yrðu svo kynntar á íbúafundi og auglýstar. Þá gefst stofnunum og einstaklingum kostur á að gera athugasemdir sem sveitarstjórn taki svo til athugunar. Vonast er til að aðalskipulagsbreytingunum ljúki síðar á þessu ári.

Þá samþykkti sveitarstjórnin á sama fundi heimild til Vesturverks ehf til þess að vinna tillögur að breytingu á deiliskipulagi til að heimila Hvalárvirkjun, en sá sem fer fram á breytingarnar lætur gera tillögurnar og kostar þær lögum samkvæmt. Það er svo sveitarstjórnin sem afgreiðir tillögurnar.

Til þessa hafa aðeins verið samþykktar í sveitarstjórn skipulagsbreytingar vegna rannsókna  til undirbúnings virkjuninni.