Vestfirska vísnahornið 12.12. 2019

Þegar gengið er frá vísnaþættinum er vonskuveður yfirvofandi og fjölmiðlar hafa dregið upp dökka mynd af því sem framundan er.

Jón Atli Játvarðsson, Reykhólum var enn að bíða þegar hann orti þessa vísu:

Óveðrið mér orku ljær,
enn er bjart og þurrt.
Veðrið sem að var í gær
þó víðast rekið burt.

 

Indriði á Skjaldfönn orti líka um veðurhorfurnar og kallar vísuna veðrahroll. Má þar greina að honum þyki lýsingarnar vera nokkuð stórkallalegar:

 

Nú er spáin rosa rauð,

rekkum veldur sorgum.

Eflaust verðum allflest dauð

er aftur kemur morgun.

 

Indriði sótti til Ísafjarðar útför vinar síns í lok síðasta mánaðar. Gefum honum orðið:

 

Í dag var ég við útför aldavinar míns, öðlingsins Halldórs Friðbjörnssonar. Ísafjarðarkirkja var þétt setinn og meðal viðstaddra var Guðni forseti sem tók mig tali. Orð hanns og persóna eru fullkomlega einar vísu virði og þó Davíð segi í Mogga að Guðni sé forseti Rúv  tökum við ekki mark á svoleiðis geðvonskuþusi.

 

Forsetanum fagna kann,

fyrst ég tjái í þessum línum.

Í sorg og gleði situr hann

hjá sómakærum vinum sínum.

 

Víkjum nú að þjóðmálunum. Indriði á Skjaldfönn hefur þetta um fjármálaráðherrann að segja.

 

Löngum er ég lít á hann

lýst mér það á tæru

að þar eigum einn með sann

úlf í sauðargæru.

 

Það bárust stuðningsyfirlýsingar frá pólskum stjórnvöldum við málstað ríkisstjórnarinnar varðandi skipun Landsréttardómara sem innlendir dómstólar settu hornin í og ákveðið var að áfrýja til Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Reyndar varð dómsmálaráðherrann ungi ekkert upprifin yfir stuðningnum frá Póllandi og enn síður Indriði:

 

Niðurstaðan skörp og skýr.

Skelfing reynist Sigga dýr

og afleiðingin ekki góð

ef við fetum pólska slóð.

 

 

Þá er það Samherjamálið og múturnar í Namibíu. Indriða líst ekki á málstaðinn hjá þeim fóstbræðrum Þorsteini Má og Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegsráðherra:

 

Tugthússdyra gliðnar gátt,

gæti Steini lent þar brátt,

en á þingi alveg sljór

áfram situr Kristján Þór.

 

 

Þessa limru nefnir Indriði hákarlaveiðar:

 

Hjá Samherja er samviskan fín

og sólin í Afríku skín,

en Helgi okkar Seljan

er alltaf að kveljan

og ætti að skammast sín.

 

 

Nú var Indriði kominn í ham og bætti við með því að stæla þekkta vísu Bólu-Hjálmars:

 

Illt er að sjá í einni lest

auðvaldsgerpin, roggin flest,

þjóðarauðs á háum hest.

Herjans leggur af þeim pest.

 

Fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson sagði í umræðu um stöðu einkarekinna fjölmiðla gagnvart RÚV að „Mönn­um finnst dá­lítið eins og Rík­is­út­varpið fljóti um á vind­sæng með sólgler­augu meðan all­ir aðilar á einka­markaði eru að berj­ast í bökk­um.“

Indriði greip þessi ummæli á lofti og orti um „brandara Bjarna“:

 

 

Af því varla yrði sút

eftir fyrri kynni,

þó að hákarl biti bút

úr Bjarna á vindsænginni.

 

Sláum botn í þennan síðasat vísnaþátt ársins með þessum orðum. Þau eru ef til vill viðeigandi að nokkru leyti því æ fleiri kjósa að fljúga til sunrænna landa yfir jólin og njóta þess að fljóta um á vindsæng í sól og sælu.

Sendi góðar kveðjur til lesenda þáttarins og þakka fyrir samfylgdina á árinu.

Kristinn H. Gunnarsson.

 

 

 

 

 

DEILA