Sameinuð sveitarfélög fá mest frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Birt hafa verið endanleg framlög til sveitarfélaga 2019 úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Athygli vekur að vestfirsku sveitarfélögin níu þar sem 2% íbúa landsins búa fá samtals tæplega 1,1 milljarð króna til þess að jafna útgjöldin, svonefnd útgjaldajöfnunarframlög. Er hlutur Vestfirðinga um 10,3% af þeim 10,4 milljörðum króna sem varið til til útgjaldajöfnunar á landinu.

Þau atriði sem einkum er litið til varðandi jöfnun kostnaðar milli sveitarfélaga eru nokkur. Eitt er hvort þau hafi nokkra þéttbýlisstaði innan sveitarfélagsins. Er það talið óhagræði sem leiði til hærri rekstrarkostnaðar sveitarfélagsins. Annað eru fjarlægðir innan sveitarfélagsins. Því meiri sem þær eru þeim mun dýrari er reksturinn. Tengt því er sérstaklega litið til kostnaðar við skólaakstur úr dreifbýli og snjómokstur í þéttbýli og loks akstursþjónusta fatlaðra. Þá er íbúafjöldinn stór liður í að ákvarða framlögin en um 3/4 hlutar fjárhæðarinnar er deilt út þannig.

Þau sveitarfélög á Vestfjörðum sem orðið hafa til úr umfangsmiklum sameiningum fá hæstu framlögin.  Súðavíkurhreppur fær 51 milljón króna framlag vegna  fjarlægða innan sveitarfélagsins, Reykhólahreppur 43 milljónir króna, Strandabyggð 46 milljónir króna  og  Vesturbyggð  38 milljónir króna til hins sama.

Ísafjarðarbær fær 56 milljónir króna framlag vegna fjölda þéttbýlisstaða og Vesturbyggð 13 milljónir króna. Reykhólahreppur fær 11 milljóna króna framlag vegna skólaaksturs og Strandabyggð svipað. Ísafjarðarbær og Vesturbyggð fá hæstu framlögin vegna snjómoksturs í þéttbýli 18 milljónir króna og 12 milljónir króna.

Árneshreppur sker sig algerlega úr þar sem sveitarfélagið fær ekki eina krónu í framlag til útgjaldajöfnunar á þessum kostnaðarþáttum. Ríkið þarf ekki að kosta neinu til að jafna útgjöld Árneshrepps.

Hæstu jöfnunarframlögin vegna útgjalda fá Ísafjarðarbær 465 milljónir króna, Vesturbyggð 173 milljónir króna, Bolungavík 110 milljónir króna og Strandabyggð 108 milljónir króna.

DEILA