Reykhólar: hreppsnefndarmaður krefur sveitarstjórn um skýringar á afsökunarbeiðni

Karl Kristjánsson, fyrrverandi oddviti Reykhólahrepps og sveitarstjórnarmaður hefur ritað sveitarstjóninni bréf og gerir athugasemd við bókun sveitarstjórnar varðandi athugasemd sem Rebekka Eiríksdóttir gerði við skipun Karls í Breiðafjarðarnefnd.

Tildrög málsins eru þau að fulltrúi hreppsins í Breiðafjarðarnefnd veiktist á síðasta ári og lést í mars á þessu ári. Varamaður hans, Rebekka Eiríksdóttir, gegndi störfum frá nóvember 2018 til nóvember 2019. Nýlega fór hún að ganga eftir upplýsingum um það  hver staða hennar væri í nefndinni og komst þá að því að í apríl 2019 hafði Karl Kristjánsson, sveitarstjórmarmaður verið tilnefndur sem aðalmaður. Hafði því Rebekka starfað í nefndinni frá apríl sem aðalmaður án þess að vita að hún væri það ekki.

Rebekka ritaði sveitarstjórninni bréf og kvartaði yfir framgangi málsins og segist fyrst hafa fengið að vita að valinn hafi verið annar aðalmaður í nefndina á síðasta fundi Breiðafjarðarnefndar.

„Í staðinn fyrir að tala við mig láta mig vita af gangi mála, að ekki sé óskað eftir mínum kröftum í þessari nefnd  þá ég fæ þær fréttir á fundi í Stykkishólmi að ég þurfi ekki að mæta meir, og hafi í raun verið varamaður á þessum fundi.  Eru þetta réttar boðleiðir, hvað finnst ykkur? “ segir í bréfi Rebekku.

Sveitarstjórnin bókaði sem svar við athugasemd Rebekku að hún  gerir sér grein fyrir að vinnubrögð í þessu máli voru ekki nógu góð og mun tileinka sér vandaðri vinnubrögð í framtíðinni. Sveitarstjórn biðst afsökunar á hvernig að málum var staðið.

Karl Kristjánsson, sem nú er í leyfi frá störfum í sveitarstjórninni,  er alls ekki ánægður með viðbrögð sveitarstjórnarinnar og segir bókunina vera furðulega.

Í bréfi Karls til sveitarstjórnarinnar segir :

„Ekki er hægt að ráða annað af þessari bókun en að eitthvað stórfellt hafi verið að vinnubrögðum við tilnefningu mína og skipun í Breiðafjarðarnefnd. Hvaða ávirðingar eru það sem tekið er undir í bréfinu? Hvað er að vinnubrögðum sveitarstjórnar? Hvað er það sem þarf að biðjast afsökunar á?“

Bréfinu lýkur Karl með þessum orðum:

„Stjórnsýslan á að vera formföst og fagleg, það var sveitarstjóra að tilkynna þessa ákvörðun sveitarstjórnar til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem skipar í nefndina, hafi það dregist úr hömlu er mögulega tilefni til að biðjast velvirðingar á því, öðru ekki.

Það er óþolandi að sitja undir óljósum dylgjum um að tilnefning mín og skipun í Breiðafjarðarnefnd sé byggð á vafasömum og óviðeigandi vinnubrögðum. Ég óska því eftir skýringum sveitarstjórnar á þessari furðulegu bókun.“