Flateyri: varla óskaniðurstaða segir bæjarráð

Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri segja í sameiginlegu svari sínu til Bæjarins besta við fyrirspurn um afstöðu bæjarráðs til úthlutunar Byggðastofnunar á sérstökum byggðakvóta til Flateyrar að :

„Það verður þó að segjast alveg eins og er að þetta getur varla talist nein óskaniðurstaða fyrir Flateyri. Undirritaðir hefðu vitanlega frekar viljað sjá allan aflann koma að landi á Flateyri ætlaðan til vinnslu þar.“

Svarið í heild:

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar lagði ríka áherslu á það í sinni bókun um málið að staðinn yrði vörður um útgerð og vinnslu á Flateyri. Að hinn eiginlegi tilgangur með úthlutun aflamarksins yrði hafður að leiðarljósi. Í rökstuðningi Byggðastofnunar kemur fram að það sé faglegt mat stofnunarinnar að þau skilyrði hafi verið uppfyllt með þessari ákvörðun.

Það verður þó að segjast alveg eins og er að þetta getur varla talist nein óskaniðurstaða fyrir Flateyri. Undirritaðir hefðu vitanlega frekar viljað sjá allan aflann koma að landi á Flateyri ætlaðan til vinnslu þar.

Þar er þó á engan hátt verið að tala niður eða lasta aðkomu Íslandssögu eða þeirra áform. Þar eru á ferðinni öflugt fyrirtæki sem hefur náð frábærum árangri og staðið vaktina myndarlega í sveitarfélaginu um áratugaskeið. Það er okkar einlæga von að þau áform, sem umsókn Íslandssögu byggir á, gangi eftir að fullu. Flateyri til heilla.“