Bolungavík: tekur jákvætt í verkmenntahús M. Í.

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi á fundi sínum í vikunni um tölvupóst Jóns Reynis Sigurvinssonar, skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, ásamt bréfi, dags. 3. október sl., vegna byggingar 2. áfanga verkmenntahúss á lóð Menntaskólans á Ísafirði, þar sem óskað er álits bæjarráðs Bolungarvíkur á þátttöku í verkefninu.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið. Bæjarráð fól bæjarstjóra að fara í umræðu um mögulega þátttöku í verkefninu.

Í bréfi skólameistara kemur fram að skólanefnd reikni með því að fjármögnun hússin liggir fyrir í fjárhagsáætlun ríkis og sveitarfélag fyrir árið 2021. Áformað er að byggja 2. áfanga við hlið 1. áfanga verkmenntahússins sem byggður var 1994. kostnaður við hann var rúmar 40 milljónir króna og greiddi ríkissjóður 60% kostnaðar og sveitarfélögin 40%.

Fram kemur einnig í bréfinu að engin aðstaða sé fyrir hendi í M.Í. fyrir kennslu í rafiðnaðargreinum og að kennsla hafi ekki verið í boði síðan 2004. Skólameistari bendir á að með tilkomu Dýrafjarðarganga verði mögulegt fyrir nemendur á suðursvæði Vestfjarða að stunda nám við skólann.

DEILA